Alltaf beðið um Rósina á Óskalagatónleikum

Þessir koma fram á Óskalagatónleikum í Akureyrarkirkju annað kvöld, föstudagkvöldið 29. júlí kl. 20.…
Þessir koma fram á Óskalagatónleikum í Akureyrarkirkju annað kvöld, föstudagkvöldið 29. júlí kl. 20. Ívar Helgason, Óskar Pétursson og Eyþór Ingi Jónsson.

„Rósin er það lag sem flestir biðja um og á hverjum einustu tónleikum. Við sleppum því lagi aldrei,“ segir Eyþór Ingi Jónsson organisti í Akureyrarkirkju sem ásamt Óskari Péturssyni hefur staðið fyrir Óskalagatónleikum í kirkjunni um verslunarmannahelgi, þeir verða annað kvöld, föstudagskvöld kl. 20.  Þeim hefur nú bæst liðsauki, en Ívar Helgason verður með á tónleikunum annað kvöld. Hann leikur á gítar og syngur, Eyþór Ingi leikur á ýmis hljómborðshljóðfæri og Óskar syngur.

„Við hlökkum mikið til að bjóða upp á þessa tónleika núna eftir tveggja ára hlé vegna kórónuveirunnar. Það er líka mikil tilhlökkun finnum við úti í samfélaginu, margar fyrirspurnir um miðasölu og annað. Þannig að við eigum von á góðri mætingu,“ segir Eyþór Ingi. Að jafnaði eru 300 til 400 gestir á Óskalagatónleikum, hafa mest verið 650 eitt árið en þá var þétt setinn bekkurinn og hluti gesta fylgdist með utandyra.

Um 300 lög á lagalistanum

„Markmiðið er að allir skemmti sér vel og ég held að það náist nú yfirleitt. Það er gjarnan slegið á létta strengi á milli laga, talsvert lagt upp úr gríni og glensi við lagakynningar og svo er oft skemmtilegt þegar fólki er að biðja um óskalega. Það koma jafnvel upp þrætur ef fleiri en einn kallar upp númer á sama tíma,“ segir hann.

Fyrirkomulag tónleikanna er þannig að settur er saman lagalisti með um það bil 300 númeruðum lögum og gefst gestum kostur á að kalla upp númer og biðja þar með um sitt óskalag. „Það er oft mjög skemmtilegt þegar gestir takast á um hvaða lag verður næst á dagskránni, en allt er það í góðu gamni.“

Um það bil 20 lög komast að og segir Eyþór Ingi að reynt sé af fremsta megni að hafa lagavalið blandað, hressileg og hugljúf lög til skiptis. „Það fellur yfirleitt vel í kramið hjá gestum að blanda saman stuði og stemmningu og rólegum lögum á milli.“

Nýjast