Allt að verða uppselt í Bótinni

Skemmtibátum hefur fjölgað mjög undanfarin ár og er svo komið að nánast allt viðlegupláss í Sandgerð…
Skemmtibátum hefur fjölgað mjög undanfarin ár og er svo komið að nánast allt viðlegupláss í Sandgerðisbót er uppselt. Mynd MÞÞ

„Það líður senn að því að ekkert pláss verði eftir í Sandgerðisbótinni,“ segir Pétur Ólafsson hafnastjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands, en mikil aukning hefur orðið í skemmtibátaflota Akureyringa undanfarin ár. Hann segir þetta þróun sem staðið hafi yfir í 20 til 25 ár. Bátum hefur fjölgað ár frá ári og jafnt og þétt er unnið að uppbyggingu aðstöðu til að koma til móts við þörfina.

Nú eru í Bótinni  6 flotbryggjur og ein harðviðarbryggja auk þess sem þar er líka eldri timburbryggja, við löndunarkranann nyrst á svæðinu. Til stendur að sögn Péturs að stækka þá bryggju, bæði til austurs og suðurs og vonast hann til að hægt verði að hefjast handa við það verk næsta vor. „Þetta er lausnin sem við höfum til að koma til móts við sífellt auknar fyrirspurnir um viðlegupláss. Það má orða það svo að nær uppselt sé við allar bryggjur í Bótinni,“ segir Pétur.

Pláss fyrir um 160 báta

Pláss er fyrir um 160  báta um þessar mundir og nánast fullbókað. Pétur segir sárafáa gera út fiskibáta frá Bótinni, þeim hafi farið fækkandi með árunum. Nær eingöngu skemmtibátar nýta sér aðstöðuna. „Við höfum lengi haldið að þetta færi að róast, en svo virðist ekki vera alveg strax í það minnsta, en ég trúi samt ekki öðru en að fari að slakna á þessu hvað úr hverju,“ segir hann.

Pétur segir að bryggjur á Hjalteyri, Svalbarðseyri, Grenivík og Hrísey séu innan Hafnasamlags Norðurlands og ef til vill geti einhverjir nýtt sér viðlegu pláss við þær. „Ég reyndi fyrir nokkrum árum að viðra hugmynd um að setja upp smábátaaðstöðu við Leiruveginn, um það bil þar sem garðurinn gengur út úr veginum, en þær fengu ekki hljómgrunn,“ segir hann og bætir við að í nánustu framtíð þurfi að huga að nýju svæði undir smábáta.

 

Nýjast