Allt á floti í safnaðarheimilinu!

Lekaskemmdir í vegg við tröppur safnaðarheimilis  Myndir   Aðsendar
Lekaskemmdir í vegg við tröppur safnaðarheimilis Myndir Aðsendar

Einhverjir gætu hafa tekið eftir Einari kirkjuverði síðastliðið sumar standandi með garðslöngu að vökva inngangsbyggingu Safnaðarheimilisins. Búið var að grafa frá byggingunni og Einar var að leita að staðnum sem lak í gegn. Nú er það svo að hvert skipti bíll keyrir yfir og það drynur niður í Safnaðarheimilið þá liggja menn á bæn að það verði ekki til að nýjir lekar spretti fram. Á döfinni eru meiriháttar viðgerðir hjá söfnuðinum til að koma hlutunum í rétt horf og koma í veg fyrir enn meiri skemmdir.

Framkvæmdir seinni part apríl

Við athugun kom í ljós að þakdúkur yfir safnaðarheimilinu var allur genginn til eftir umferð á þaki safnaðarheimilisins og vatn lak í gegn.  Á bílastæðinu geta glöggir geta séð hvar það hefur sigið við mörk safnaðarheimilisins undir. Að laga húsnæðið er mikil framkvæmd sem á að byrja síðla í apríl og verklok eru áætluð þremur mánuðum síðar. Moka þarf af dúknum og laga, endurnýja einangrun og að lokum að ganga frá svæðinu svo sómi sé af. 

  Lekaskemmdir í gólfi inní safnaðarheimili

Hönnun og framkvæmd er unnin með Fasteignum Akureyrarbæjar og bæjarsjóður stendur fyrir þó nokkrum hluta kostnaðar. Áætlað er að kostnaður verði um 85 milljónir sem söfnuðurinn þarf að fjármagna sinn hluta af með lántöku að mestum hluta. Jöfnunarsjóður sókna mun styrkja framkvæmdirnar að einhverju leyti.

Akstursleið fyrir líkbíl verður lokað og breytt alfarið í göngustíg og handriði (sem er enn í hönnun) verður bætt við ofan á brúnir safnaðarheimilisins til að minnka fallhættu.  Þá verður lýsing samræmd og samtengd í kirkjutröppunum, á svæðinu við kirkjuna, á göngustíg og í lýsingu upp á kirkjuna sjálfa til að ná fram heildarbrag í lýsingu. 

  Akstursleið sem verður gönguleið og brún safnaðarheimilisins

Einhverjar raskanir verða á aðkomu í kirkjuna á þessum tíma og bílastæðum fækkar lítillega á meðan þeim stendur. 

Allt sundurgrafið fram á sumar

Nú þegar er verið að endurnýja tröppurnar upp að Akureyrarkirkju og þegar áætlaðar viðgerðir við Akureyrarkirkju hefjast er ljóst að ásýndin verður ekki upp á marga fiska á meðan varir. Vonir standa til þess að báðum þessum aðgerðum verið lokið á svipuðum tíma þannig að svæðið allt verði orðið fallegt og til sóma fyrir bæjarfélagið.

Nýjast