Akureyringar heiðraðir
Á hátíðarfundi bæjarstjórnar Akureyrar í dag voru Jónu Bertu Jónsdóttur, sem flestir þekkja af störfum fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, og Hermanni Sigtryggssyni, æskulýðs- og íþróttafrömuði, veittar sérstakar heiðursviðurkenningar í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins. Jóna Berta lauk skyldunámi og fór snemma að vinna fyrir sér.
Þegar hún var 15 ára smitaðist hún af berklum og dvaldi með hléum á Kristneshæli næstu 11 ár en hún var síðasti sjúklingurinn á Íslandi sem fékk þá læknismeðferð að vera hogginn, sem var ein þeirra aðferða sem notuð var fyrir komu nýrra lyfja gegn þessum ilvíga sjúkdómi. Eftir að Jóna Berta náði heilsu starfaði hún hjá Sambandsverksmiðjunum í 35 ár, á FSA við ummönnun og sem matráðskona.
Hermann var aðeins 17. ára gamall þegar hann hóf störf sem íþróttakennari hjá UMSE og skólum í Eyjafirði, seinna starfaði hann við íþróttakennslu á Stokkseyri og Eyrarbakka og svo aftur á heimaslóðum fyrir UMSE þar sem hann varð jafnframt framkvæmdastjóri. Hermann var hótelstjóri og framkvæmdastóri fyrir templara á Akureyri um 3 ára skeið. Lengst var hann íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar eða frá árinu 1963-1996. Frá þeim tíma var hann fyrsti framkvæmdastjóri Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og móttökustjóri hjá bænum eða til ársins 2001 þegar hann lét af störfum 70 ára að aldri.