20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyri- Velferðarráð vill Lautina í heppilegra húsnæði
„Við höfum verið að skoða hvað hægt er að gera í stöðunni,“ segir Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður Velferðarráðs Akureyrar. Þjónusta og húsnæðismál Lautarinnar, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, voru til umræðu hjá Velferðarráði. Fulltrúi V-lista óskaði eftir að málefni Lautarinnar yrðu tekin til umræðu.
Fram kom að mikilvægt væri að framkvæma þarfagreiningu á húsnæðismálum Lautarinnar og tryggja að einstaklingum með langvinnar alvarlegar geðraskanir standi til boða viðeigandi úrræði til að rjúfa félagslega einangrun. Áhersla er lögð á heimilislegt og afslappað andrúmsloft í Lautinni og þangað koma gestir á eigin forsendum.
Starfsemi Lautarinnar fer fram í húsnæði við Brekkugötu 34 og er markmiðið að rjúfa félagslega einangrun, auka lífgæði þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma og draga úr fordómum í samfélaginu. Akureyrarbær tók við rekstri og þjónustu Lautarinnar í september árið 2019, en hann hafði áður verið samstarfsverkefni sveitarfélagsins, Rauða Krossins og Geðverndarfélags Akureyrar. Velferðarráð bæjarins telur brýnt að selja húsið að Brekkugötu 34 og að annað hentugra verði keypt eða leigt fyrir starfsemina.
„Þetta húsnæði er óhentugt fyrir þá starfsemi sem þar fer fram, það er á þremur hæðum og því nýtist stór hluti hússins ekki hluta þess hóps sem sækir starfsemina,“ segir Elma. Akureyrarbær á húsnæðið og segir hún að verið sé að skoða þá möguleika sem fyrir hendi séu í stöðunni. Til greina komi að kaupa nýtt húsnæði eða leiga. „Það er mikilvægt að húsnæðið sé miðsvæðis, á einni hæð og að samgöngur að því séu greiðar, t.d. að stoppistöð fyrir strætó sé nálægt.“