20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyrarveikin og Covid-19
Nú eru rétt 75 ár frá því að sjúkdómur sem fékk nafnið Akureyrarveikin geisaði hér á landi. Enn er fólk á lífi sem veiktist af sjúkdómnum og sumir þeirra áttu við langtíma eftirköst að stríða. Nú er vonandi að öðrum faraldri sé að ljúka, Covid-19. Þessu er greint frá á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Hvað var eiginlega þessi Akureyrarveiki og hvað eiga Akureyrarveikin og Covid-19 sameiginlegt? Og hvar kemur ME sjúkdómurinn inn í þessa mynd? Þetta verður rætt næstkomandi laugardag, 6 maí kl. 13, en þá efnir Akureyrarbær og Sjúkrahúsið á Akureyri til viðburðar sem stefnt er að að verði árleg vísindaráðstefna á Akureyri um langtíma eftirstöðvar sýkinga. Þar munu fulltrúar þeirra sem upplifðu Akureyrarveikina og Covid-19 lýsa afleiðingum þess á lífsgæði þeirra.
Landlæknir mun flytja ávarp og þrír læknar munu fjalla um þessa sjúkdóma, hvað vitað er um þá og hvaða rannsóknir eru framundan.
Þá verður fjallað um hvaða áhrif Akureyrarveikin hafði á bæjarlífið fyrir 75 árum.
Með þessu málþingi er annars vegar fjallað um sögulegan viðburð, en hins vegar er verið að efla Akureyri og Sjúkrahúsið til að verða vettvangur fyrir viðburði á sviði heilbrigðismála.
Viðburðurinn er ætlaður almenningi og fer fram á Amtsbókasafninu. Boðið verður upp á tónlistaratriði og veitingar.
Fundinum verður einnig streymt á Youtuberás Akureyrarbæjar fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.