6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Akureyrarkirkja með vinsælustu viðkomustöðum ferðalanga
„Það gera sér ekki allir grein fyrir því hversu vinsæll viðkomustaður Akureyrarkirkja er,“ segir sr. Svavar A. Jónsson sóknarprestur. Kirkjan hafi mikið aðdráttarafl og hið sama megi segja um kirkjutröppurnar. Tugþúsundir gesta skoða kirkjuna á hverju ári. Enda kirkjan eitt helsta kennileiti Akureyrarbæjar.
Svavar segir að óformlega hafi verið rætt í sóknarnefnd þörf fyrir að skapa ferðalöngum tækifæri til að setja niður, fá sér kaffisopa eða komast á salerni. Engin slík aðstaða er fyrir hendi fyrir fólk sem lagt hefur á sig gönguferð upp kirkjutröppurnar og koma ef til vill að lokuðum dyrum ef athöfn er í gangi í kirkjunni. Þá segir Svavar að fjöldinn allur af ferðafólki haldi leið sinni áfram eftir heimsókn í kirkjuna og skoði Lystigarðinn og það sem fyrir augu ber á leiðinni.
Hugmynd um byggingu þjónustuhúss
„Þegar skemmtiferðaskipin liggja hér við bryggju er mikil umferð um kirkjuna, stöðugur straumur má segja. Stór hluti gestanna eru eldri borgarar sem örugglega gætu þegið eins konar afdrep til að hvíla lúin bein,“ segir Svavar. Hugmynd hefur verið varpað fram um að reisa viðbyggingu út frá núverandi safnaðarheimili þar sem koma mætti fyrir eins konar þjónustuhúsi eð litlu kaffihúsi, salernum og söluhorni fyrir minjagripi sem tengjast kirkjunni. „Það er mikið spurt um minjagripi, fólk vill gjarnan hafa með sér eitthvað til minja um komuna í kirkjuna en við höfum ekki tækifæri til að bjóða upp á slíkt.“
Svavar segir enn sem komið er bara um hugmynd og ræða, en það sem sett hafi aukin kraft í umræðuna er að þörf er fyrir aukið húsnæði, það vanti geymslur og meira rými undir skrifstofur enda hafi starfsfólki fjölgað með sameiningu prestakallsins við Laugalandsprestakall í Eyjafjarðarsveit.
Yrði af slíkri byggingu segir hann að aðgengi að Sigurhæði yrði einnig auðveldara en ferðafólk hefur yfirleitt mikinn áhuga fyrir Matthíasi Jochumsyni sem byggði það hús ásamt Guðrúnu Runólfsdóttir. „Mynd af Matthíasi er hér í einum glugga í kirkjunni og af þeim glugga eru teknar fjölmargar ljósmyndir,“ segir Svavar.
Hann segir að framkvæmd sem þessi kosti umtalsverða fjármuni, en málið sé ekki komið á það stig að reikna úr hversu mikið nákvæmlega. „Ég á von á að í nánustu framtíð verði þessi umræða tekin upp á næsta stig, því þörf fyrir aukið húsnæði er fyrir hendi,“ segir Svavar.
Eftir góða göngu upp kirkjutröppurnar væri aldeilis gott að geta sest niður á notalegu kaffihús áður en lengra er haldið.