Akureyrarbær hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Viðurkenningarhafar Jafnvægisvogarinnar. Mynd/akureyri.is
Viðurkenningarhafar Jafnvægisvogarinnar. Mynd/akureyri.is

Akureyrarbær hlaut í gær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar sem er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Viðurkenningin er veitt þeim sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Eliza Reid afhenti Höllu Margréti Tryggvadóttur, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar, viðurkenninguna á stafrænu ráðstefnunni Jafnrétti er ákvörðun, en Halla Margrét hefur leitt þessa mikilvægu vinnu fyrir hönd Akureyrarbæjar.

Alls voru 37 fyrirtækjum, sjö sveitarfélögum og átta öðrum opinberum aðilum veittar viðurkenningar úr hópi þeirra 152 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu og tóku þátt í könnun um aðgerðir sem gripið var til. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.

Að Jafnvægisvoginni standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, PiparTBWA og Ríkisútvarpið.

Nýjast