Áhyggjur ef þjónusta skerðist á sama tíma og þörfin eykst
mth@vikubladid.is
„Ég hef verulegar áhyggjur af því að þjónusta við íbúa svæðisins skerðist á sama tíma og þörfin er að aukast,“ segir Halla Björk Reynisdóttir formaður bæjarráðs Akureyrar.
Bæjarstjórn Akureyrar fjallaði um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 og áhrif þess á Akureyri og nágrenni. Þar var lýst yfir miklum áhyggjum yfir því að til standi að skerða framlög til embættis Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og að uppsafnaður vandi Sjúkrahússins á Akureyri sé ekki leystur.
Halla Björk segir að heildarframlög til Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra séu í frumvarpinu lækkuð á milli ára sem sé áhyggjuefni í ljósi þess að verkefni lögreglu eru sífellt að aukast og verða flóknari.
Aukning er á framlögum til Sjúkrahússins á Akureyri sem nemur tæpum 478 milljónum króna á milli ára. Halla Björk segir ekki liggja fyrir hvort sú hækkun dugi þó til að mæta launa- og
verðlagshækkunum. Uppsafnaður halli sjúkrahússins í ársbyrjun 2022 sé um 450 milljónir „og lítur út fyrir að aukast ef ekki verður brugðist við.“