Áhyggjur af umferðarhraða við Þelamerkurskóla
Hámarkshraði við Þelamerkurskóla er 90 km/klst, skólalóðin liggur að þjóðvegi 1 og eru þar börn að leik allan ársins hring. Foreldrafélag skólans sendi inn erindi til sveitarfélagsins fyrr á þessu ári þar sem þau lýsa yfir áhyggjum af miklum umferðarhraða í nágrenni skólans.
Umferðin er gífurlega mikil og lýsir sveitarstjórn Hörgársveitar þungum áhyggjum yfir miklum umferðarhraða við skólann. Samkvæmt mælingum sem gerðar voru í maí kemur fram að meðalhraði er á ákveðnum tímum yfir 90 km/klst.
Hæsti mældi hraði var 167 km/klst. Sveitarstjórnin hefur ítrekað það við Vegagerðina að umferðarhraði við Þelamerkurskóla verði lækkaður hið fyrsta og gerðar verði ráðstafanir við veginn til að auka öryggi barna við skólann.