30. október - 6. nóember - Tbl 44
Áform um hótelbyggingu við Hafnarstræti 75
Fyrirhugað er að reisa hótelbyggingu á lóð nr. 75 við Hafnarstræti og tengja hana við núverandi hús á lóð nr. 73 með tengibyggingu. Óskað hefur verið eftir því að lóðirnar tvær verði sameinaðar í eina.
Skipulagsráð Akureyrar hefur tekið jákvætt í þetta erindi og hefur heimilað umsækjenda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits til samræmis við erindið. Er skipulagsfulltrúa jafnframt falið að leita umsagnar Minjastofnunar um tillöguna.
Fram kemur í erindi frá Ómari Ívarssyni fyrir hönd Hótels Akureyrar að breytingin felst í því að sameina lóðirnar við Hafnarstrætis 73 og 75 í eina lóð á sama hátt og þegar hefur verið gert fyrir lóðir við Hafnarstrætis 67-69 fyrir Hótel Akureyri.
Sambærilegt erindi var sent inn til skipulagsyfirvalda síðla árs 2020 og þá bókað að nauðsynlegt væri að leggja fram frumtillögur að hönnun mannvirkja áður en ákvörðun um breytingu á deiliskipulag væri tekin. Í nýju erindi eru sýndar þrívíddar myndir af mögulegri nýbyggingu á sameinaðri lóð. Mögulegt útlit nýbyggingar er í samræmi við útlit núverandi og fyrirhugaðra bygginga á lóðum til suðurs.
Í gildandi deiliskipulagi er heimilt að fjarlæga byggingu sem stendur á lóð númer 75 við Hafnarstræti. Einnig er heimild fyrir því að hækka núverandi hús á þessum stað við götuna þannig að það verði 3,5 hæðir.