Aflið, miðstöð gegn kynferðis- og heimilisofbeldi Nýir einstaklingar hafa ekki verið fleiri í fimm ár

Erla Hrönn Hörpu og Unnsteinsdóttir verkefnastýra Aflsins og Erla Lind Friðriksdóttir ráðgjafi á skr…
Erla Hrönn Hörpu og Unnsteinsdóttir verkefnastýra Aflsins og Erla Lind Friðriksdóttir ráðgjafi á skrifstofu Aflsins Mynd MÞÞ

Alls komu 112 nýir einstaklingar í viðtöl hjá Aflinu, miðstöð fyrir þá sem orðið hafa fyrir kynferðis- eða heimilisofbeldi. Ekki hafa fleiri nýir komið inn á einu ári frá því árið 2018. Alls nutu 163 skjólstæðingar þjónustu Aflsins á liðnu ári. „Einstaklingar sem sækja þjónustu Aflsins eru ekki varnarlaus fórnarlömb ofbeldis heldur einstaklingar sem hafa lifað af ofbeldi,“ segir Erla Hrönn Hörpu Unnsteinsdóttir verkefnastýra Aflsins.

Starfsemi Aflsins fer að  stærstum hluta fram í húsakynnum þess við Aðalstræti 14 ár Akureyri, en að auki er boðið upp á þjónustu við skjólstæðinga annars staðar. Skrifað hefur verið undir samning við skóla- og félagsþjónustu Austur – Húnavatnssýslu og í kjölfarið býður Aflið upp á reglulega ráðgjöf á Blönduósi. Starfsemin hófst nú í vikunni. Erla Lind Friðriksdóttir ráðgjafi á skrifstofu Aflsins á Akureyri sinnir Blönduósi og segir mikilvægt að bjóða upp á viðtöl í heimabyggð eða sem næst henni til að auðvelda fólki að nálgast hana. Þjónusta hefur verið í boði á Húsavík í rúmt ár. Áður sinntu ráðgjafar frá Akureyri skjólstæðingum fyrir austan, en nú hefur heimamaður tekið við því kefli og býður Aflið upp á ráðgjöf á Egilsstöðum og þarf því ekki að aka langar leiðir. Erla Lind segir að til að byrja með verði boðið upp á viðtöl á Blönduósi einu sinni í mánuði en reynist þörfin meiri verði aukið við.

Aflið er með þriggja ára samning við ríkið vegna starfseminnar og nýtist sá styrkur til að greiða laun og rekstur. Akureyrarbær stendur straum af húsnæðiskostnaði Aflsins og ýmis sveitarfélög styrkja reksturinn með fjárframlagi. Þá fást styrkir frá félögum og einstaklingum en mestu hefur, undanfarin tvö ár,  munað um veglega styrki frá Virk. Þeir hefi verið grundvöllur að því að hægt er að færa starfsemina út í dreifðari byggðir.

Ofbeldi er samfélagmein ekki mein einstakra sveitarfélaga

Um 60% skjólstæðinga Aflsins koma frá Akureyri, en hin 40% frá alls 14 sveitarfélögum af Norðurlandi, eystra og vestra, Austurlandi og Suðvesturlandi. „Þegar við komum á staðinn og bjóðum upp á þessa þjónustu kemur oft í ljós að þörf er fyrir hana. Þörfin er mögulega ekki jafn augljós þegar hún er ekki í boði, Það er vitað að þörf á slíkri þjónustu er fyrir hendi á öllu landinu, þar sem ofbeldi er samfélagsmein en ekki mein einstakra sveitarfélaga. Við teljum mjög nauðsynlegt að fólki sem á þarf að halda standi þessi þjónustu til boða óháð búsetu. Einnig er okkar þjónustu án endurgjalds þannig að allir geta nýtt sér hana hver svo sem efnahagur fólks er,“ segja þær.

Vísbendingar séu um að þjónustuþörfin sé að aukast og það skýri til að mynda að þær auki nú við og bjóði þjónustu víðar en á Akureyri. „Við sáum á Austurlandi að þetta fór hægt af stað en spurðist út og þegar upp var staðið reyndist mikil þörf vera til staðar þar um slóðir fyrir okkar þjónustu,“ segja þær og bæta við að fyrirspurnir hafi komið úr Austur-Húnavatnssýslu sem leiddi til þess að nú er verið að útvíkka starfsemina. Njóta þær stuðnings frá skóla- og félagsþjónustu í sýslunni vegna ferða sinna vestur.

 

Áfalla- og þolendamiðuð þjónusta

Mikilvægur þáttur í starfsemi Aflsins er að þjónustan er áfalla-og þolendamiðuð og snýst ávallt um að tekið er mark á reynslu þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi, gagnkvæmri virðingu og öllum er mætt á þeim stað sem það er hverju sinni. „Okkar vinna felst m.a. í því að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk og að aðstoða þá við að nýta þann styrk til að breyta eigin lífi. Við leggjum líka alltaf áherslu á að ofbeldi er ekki sök þess sem fyrir því verður, heldur hluti af samfélagsgerðinni,“ segja þær Erla Hrönn og Erla Lind.

Einstaklingar sem óska eftir þjónustu ráða för, þ.e. hversu marga viðtalstíma þeir telja sig þurfa og yfir hve langan tíma sem og hvað stuðning þeir almennt þurfa á að halda til að vinna úr áfallinu.

Ungar konur í meirihluta skjólstæðinga

Stærsti hópurinn sem leitar eftir þjónustu hjá Aflinu eru ungar konur, á aldrinum 18 til 29 ára, þær eru í heild tæplega 40% skjólstæðinga í fyrra. Konur eru í meirihluta skjólstæðinga Aflsins, 87%, karlar 11% og kynsegin einstaklingar 1%.

Alls voru á liðnu ári tekin 663 einstaklingsviðtöl sem var nokkur aukning frá árinu á undan en fækkun ef litið er til ársins 2020 þegar þau voru 773 talsins. Nýir skjólstæðingar voru aftur á móti margir árið 2022, 112 í allt miðað við 99 árið á undan og 79 árið 2020. Fjöldi einstaklinga sem sótti hópastarf hefur aldrei verið jafn lágur, en helsta ástæða þess er að hópastarf lá að miklu leyti niðri í fyrra, ekki var til nægt fjármagn til að halda uppi hópastarfi. „Við erum að vona að nú í ár verði hægt að bjóða upp á að minnsta kosti fjóra hópa, það er mikilvægt fyrir fólk sem notar þjónustuna okkar að ljúka ferlinu með hópastarfi, það má segja að þátttaka í því sé eins konar útskrift,“ segja þær Erla Hrönn og Erla Lind.

Andlegt ofbeldi algengast

Helsta ástæða fyrir komu fólks til Aflsins er vegna andlegs ofbeldis, en kynferðisleg misnotkun eða áreitni, nauðgun eða nauðgunartilraun vegna einnig hátt. Þá er heimilisofbeldi ofarlega á lista fyrir ástæður komunnar.  Þær segja að margir nefni fleiri en eina ástæðu fyrir komu sinni. Einelti er eina ástæðan sem karlar nefna oftar sem ástæðu fyrir komu til Aflsins en konur. Í 18% tilvika segja karlar að einelti hafi orðið til þess að þeir hafi óskað eftir viðtali, en 15% kvennanna nefna þá ástæðu.

Þær stöllur segja að allir sem upplifað hafa ofbeldi glími við einhverjar afleiðingar. Nær allir eða 88% upplifðu kvíða eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi. Þá fundu yfir 75% fyrir tilfinningum eins og sorg og litlu færri fundu fyrir tilfinningum eins og ótta, hræðslu og skömm. Annað sem fólk nefndi var þunglyndi, verkir, sjálfsvígshugsanir, samskiptaörðugleikar, einangrun, einbeitingaskortur og þá eru svefntruflanir algengur fylgikvilli þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi, tilfinningadoði sömuleiðis og lágt sjálfsmat.

„Fólk finnur alls kyns tilfinningar, en langalgengast er að konur þjáist af kvíða, yfir 90% kvenna fundu fyrir miklum kvíða eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi. Karlarnir aftur á móti upplifa fremur tilfinningar eins og lágt sjálfsmat og reiði Þetta hefur áhrif á lífsgæði fólksins, margir nefna annars konar matarhegðun og aukna áfengisneyslu sem dæmi, en karlarnir eru frekar þar og konur með breytta matarhegðun. „

Nýjast