Aðgerðaráætlun hjá KA vegna N1-mótsins
KA hefur undirbúið aðgerðaráætlun svo hægt sé að halda N1-mótið í knattspyrnu í sumar en mótið er eitt stærsta fótboltamóts landsins ár hvert. Mikill fjöldi fólks ferðast til Akureyrar í tengslum við mótið. N1-mótið, sem hefur verið haldið á hverju ári frá 1987, hefst miðvikudaginn 1. júlí og stendur til laugardagsins 4. júlí eins og áætlað var en með þeim fyrirvara að ekki komi upp bakslag í aðgerðum almannavarna. Frá þessu er greint á vef KA.
Framkvæmd og skipulag mótsins er unnin í nánu samráði við almannavarnir og bæjaryfirvöld Akureyrar. Undanfarin ár hefur mótið einungis farið fram á KA-svæðinu en í ár verður einnig spilað á Greifavellinum (Akureyrarvelli). Þá verður KA-svæðinu skipt niður í þrjú hólf til að takmarka samgang fólks og verður til að mynda sér klósettaðstaða á öllum svæðunum þremur.
Fjöldi sjálfboðaliða mun passa upp á að þrif og sótthreinsun verði í lagi. Allur búnaður sem viðkemur mótinu (bolti, vesti ofl.) verður þrifinn reglulega og þá verður sprittstöðvum komið upp á helstu svæðum mótsins.