Tíminn líður, trúðu mér 2

Dýrleif Skjóldal skrifar
Dýrleif Skjóldal skrifar

Þegar fyrst er farið af stað við að róta upp í minningum liðina ára, er ekki laust við að það rofi til og nætursvefn minn raskist. Ástæðan er sú ólga sem hugsanir um yfirbyggða æfinga- og keppnislaug veldur. Eins og áður hefur komið fram erum ég og Sundfélagið Óðinn á svipuðum aldri og 10 ára gekk ég til liðs við félagið.

Þá hóf ég mína sundþjálfun hjá Jóhanni Möller sem var í forsvari og aðalþjálfari félagsins á þeim árum. Þá var yngri hópur þjálfaður í innilauginni (12,5x4m) en sá eldri í úti lauginni sem þá var 33,3 m á lengd en sett voru niður skilrúm í hana á vetrum þannig að grynnið var stúkað af og var hún þá 25 metrar.

Sundfélagið fékk ekki afmarkað pláss til æfinga þar, en til að búa til rými voru stóru strákarnir sendir útí syðst í laugina hver á eftir öðrum og syntu þeir skriðsund og sköpuð það mikinn öldugang að þeir sem í lauginni voru forðuðu sér í átt að nyrðri bakkanum og gátu þá æfingar hafist.

Í lok síðustu aldar stóð til að fara í gagngerar endurbætur á sundlauga svæðinu og 1998 var opnað nýtt sundlaugaker við hlið hins gamla á úti svæðinu og átti það að vera ætlað til kennslu og æfinga, 6 brauta 25 m. laug. Við í sundfélaginu glöddumst yfir því að nú væri draumur okkar loks að rætast. Stjórn Óðins sat fund með byggingastjóra Akureyrarlaugar Magnúsi Garðarssyni sem sýndi okkur myndir og bæklinga um yfirbyggingar sem hannaðar væru fyrir svona standard laug, heilan kúpul annars vegar og hins vegar byggingu úr trefjaplasti þar sem hægt væri að taka af bæði suðurhlið og þak, til að hleypa sólinni inni. Hann sagði jafnframt og fullvissaði okkur um að fyrst þyrfti að setja niður laugina og svo yrði keypt þak yfir því hita tap af svo stórri laug með yfirfljótanlegum bökkum væri það mikið, að svona þak myndi borga sig upp á 5-20 árum eftir því hve stórt að yrði.

Í dag finnast engar minjar um þennan fund nema í minni okkar fyrrum stjórnarmanna í Óðni, byggingastjórinn látinn og engar fundargerðir, engar ályktanir, því við TRÚÐUM því að bærinn væri loks að uppfylla ósk okkar um viðunandi aðstöðu til æfinga og keppni í sundi. Eftir standa tvær 25 metra útilaugar hlið við hlið, rétt undir heimskautsbaug.

Ný öld hófst og með þessu aukna plássi sem við þó fengum stækkaði félagið og dafnaði. Fór úr því að vera 60-80 félagar, í 100, 150, 200, og nú í dag (12. Okt. 2024) eru skráðir 289 iðkendur hjá félaginu og 71 á biðlista. Flestir þessara iðkenda stunda sínar æfingar í Glerárlaug eða 13 hópar undir minni stjórn. Sú laug opnaði 1992 eftir harðvítugar deilur þar sem bærinn vildi helst byggja litla sundlaug svipaðri innilauginni, en þar sem ríkið tók þátt í að byggja skóla sundlaugar allt að 16,7 metrum varð það þrautalendingin.

Sú laug, fullyrði ég að er best nýtta sundlaug landsins per rúmmetra af vatni! Yfir vetrartímann nýta 3 skólar, sundfélagið og Eydís sjúkraþjálfari laugina frá 8-18 alla virka daga og almenningur fær pláss frá 6:45-8 og 18-21virka daga auk opnunar um helgar.

Að koma 13 hópum fyrir á 14 klst og 10 mínútum á viku, er ekki hægt nema að skera flest allar æfingar niður í hálftíma! Mér er það til efs að nokkurt íþróttafélag landsins bjóði upp á svo stuttar æfingar!

Látum orð lítillar stúlku sem kláraði æfinguna sína í gær verð síðustu orð þessa pistils. ,,Dilla af hverju eru sundæfingarnar bara í hálftíma, það er svo gaman í sundi? Ég er klukkutíma í dansi og bróðir minn klukkutíma í fótbolta.”

Virðingarfyllst, 

Dilla

Nýjast