Á vaktinni um jólin

Stefán Geir Andrésson, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður. Mynd: HÞ
Stefán Geir Andrésson, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður. Mynd: HÞ

Að vera heima í faðmi fjölskyldunnar um jólin er notaleg tilhugsun sem flest okkar tökum sem sjálfsögðum hlut. Ekki eru allir sem fá að njóta þess að halda jólin heima en sumum vinnustöðum er aldrei lokað. Við fórum á stúfana og spjölluðum við fólk sem stendur vaktina yfir hátíðirnar. Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í Háskólanum á Akureyri.

Stefán Geir Andrésson, sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður

 Hefur þú oft verið á vakt á aðfangadagskvöld?

Ég hef ekki verið á aðfangadagskvöld en ég hef verið nokkrum sinnum á dagvakt á aðfangadag sem er þá frá 07:30-19:30.

Hvernig er að fá ekki frí í vinnunni yfir hátíðirnar?

Þessi vinna hefur vissa kosti og galla eins og að vinna á hátíðisdögum. Það er auðvitað ekkert gaman en við fáum marga frídaga inn á milli sem bæta þetta upp. Vaktaplanið helst óbreytt yfir hátíðirnar og t.d. í ár vinnur sama vaktin á Þorláksmessu, aðfangadag, jóladag og annan í jólum.

Af öllum dögum hátíðanna, hvaða dag langar þig helst að vera heima með fjölskyldunni?

Það er náttúrulega bara aðfangadagskvöld og aðfangadagur. Við náum alltaf að búa til eitthvert gott plan í kringum þetta og skipuleggja daginn vel þó svo að ég komi ekki heim fyrr en um áttaleytið. Þá er stundum búið að opna nokkra pakka og svona en við borðum eftir að ég kem heim.

Er reynt að skapa jólalega stemmingu í vinnunni?

Já, það er alltaf góð stemming hér á aðfangadag. Borðaður góður matur, og svo er gos og Mackintosh í boði. Það er bara nokkuð ljúft að vera á vaktinni þessa daga. Hér er líka góður félagsskapur. Við klæðumst síðan hátíðarbúningum allan daginn, sem er formlegri klæðnaður.

Manstu eftir einhverju eftirminnilegu sem gerðist í vinnunni á aðfangadagskvöld?

Fyrstu jólin sem að ég var að vinna kom útkall rétt áður en klukkan sló sex á aðfangadagskvöld. Það var sjúkraflug til Grænlands. Vaktmaðurinn á flugvaktinni komst ómögulega í það svo að varðstjórinn tók það að sér og var hálfan sólarhring í því útkalli eða þangað til á jóladagsmorgun.

Helga Þóra Helgadóttir –

 

Nýjast