Á vaktinni um jólin

Eva Dögg Sigurðardóttir, sjúkraliði á Dvalarheimilinu Hlíð. Mynd: HÞ
Eva Dögg Sigurðardóttir, sjúkraliði á Dvalarheimilinu Hlíð. Mynd: HÞ

Að vera heima í faðmi fjölskyldunnar um jólin er notaleg tilhugsun sem flest okkar tökum sem sjálfsögðum hlut. Ekki eru allir sem fá að njóta þess að halda jólin heima en sumum vinnustöðum er aldrei lokað. Við fórum á stúfana og spjölluðum við fólk sem stendur vaktina yfir hátíðirnar. Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í Háskólanum á Akureyri.

Eva Dögg Sigurðardóttir, sjúkraliði á Dvalarheimilinu Hlíð:

Hefur þú oft verið á vakt á aðfangadagskvöld?

Já, ég hef nokkrum sinnum verið á dagvakt og einu sinni á kvöldvakt á aðfangadagskvöld.

Hvernig er að fá ekki frí í vinnunni yfir hátíðirnar?

Mér finnst það allt í lagi. Ef þú ætlar að starfa í heilbrigðisgeiranum þá veistu það fyrirfram að þú munt koma til með að vinna um jól, áramót og páska. Þeir sem ekki geta sætt sig við það endast auðvitað ekki í þessu starfi. Fjölskyldan venst þessu líka og hún ber virðingu fyrir mínu starfi. Af öllum dögum hátíðanna, hvaða dag langar þig helst að vera heima með fjölskyldunni? Það er í raun enginn sérstakur dagur en auðvitað er aðfangadagskvöld kvöldið sem flestir vilja vera heima. Það er sérstakt að vera í burtu frá fjölskyldunni þá en ég held að henni finnist þetta erfiðara en mér. Eins og fyrir krakkana, að hafa mömmu ekki heima, en skilja alveg að einhver þarf að hugsa um gamla fólkið.

Er reynt að skapa jólalega stemmingu í vinnunni?

Hér eru jólin bara eins og heima, þetta er náttúrulega bara heimili. Við sköpum mikla stemmingu og hér er mjög hátíðlegt. Allir fara í sitt fínasta púss og borða saman jólamatinn. Síðan er samverustund við jólatréð í setustofunni og sumir opna pakkana þar. Aðrir fara inn á herbergin sín og opna pakkana þar og sumir fá ættingja og vini í heimsókn. Aðfangadagur er alltaf skemmtilegur hérna. Það er góð stemming allan daginn, alveg eins og heima.

Manstu eftir einhverju eftirminnilegu sem gerðist í vinnunni á aðfangadagskvöld?

Það er mér mjög minnistætt þegar maður sem var hér bað mig að koma inn í herbergi til sín eftir matinn og lesa jólakortin með sér. Þessi maður átti engin börn og hafði aldrei átt konu. Hann var því mikið einn og fékk fáa gesti. Hann hafði fengið fimm jólakort send og einn jólapakka. Maðurinn var ólæs og bað mig því að hjálpa sér að lesa kortin. Þetta er mér sérstaklega minnisstætt vegna þess hversu ánægður hann var. Síðan var það einu sinni kona hér á heimilinu sem gaf mér jólagjöf og þakkaði mér fyrir að vera alltaf góð við sig. Hún hafði þá heklað handa mér afskaplega fallegar bjöllur sem hún setti á jólaseríu. Mér þótti mjög vænt um þetta og mun sennilega aldrei gleyma þessu.

Helga Þóra Helgadóttir –

Nýjast