Á götuhorninu- Er nú farið að ,,salta" göturnar?

Blessað kranavatnið er alltaf best til alls.   Mynd Vikublaðið
Blessað kranavatnið er alltaf best til alls. Mynd Vikublaðið

Eitt af því sem gerir Akureyringa segjum æsta,  er hvort  og hvernig götur bæjarins eru þrifnar.  Sóparar eða tæki sem þyrlar bara upp rykinu, sjór á göturnar, eða hreint vatn.  Við skulum ekki fara út í umdeildustu ,,þrif“ gatna okkar að þessu sinni  þ.e snjómoksturinn en á því sviði erum allir sérfróðir nema þessir sem stjórna honum ef marka má raddir.   

Svifryk er áberandi i þessari frábæru tíð sem verið hefur  hér dag eftir dag og brugðið hefur verið til þess ráðs að bleyta rækilega götur bæjarins. 

Nokkur umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum og auðvitða götuhornum  um það hvort nú sé aftur farið að þvo göturnar með sjó en sú aðgerð vakti mikil viðbrögð meðal bæjarbúa þegar reynd var fyrir nokkrum árum!

Verkval hefur séð um að þvo götur bæjarins  í þessari lotu og þar á bæ settu starfsfólk færslu á Facebooksíðu fyrirtækisins sem tekur af öl tvímæli um það hvernig vatn er notað.

 

Færsluna má sjá hér að neðan

,,Meirihluti bæjarbúa er ánægður með að verið sé að sópa laufi og skít af götum bæjarins og þvo þær í kjölfarið eins og gert hefur verið undanfarna daga. Örfáir bæjarbúar eru samt enn brenndir og vantrúa og halda að verið sé að ausa sjó á götur.

Verkval ehf vill því taka það skýrt fram að fyrirtækið hefur aldrei tekið þátt í að bera sjó eða pækil á götur og hefur þráfalt neitað Akureyrarbæ um slíka þjónustu. Við viljum hvorki bænum né okkar tækjum það að gera slíkt.

Við höfum þvegið götur bæjarins með hreinu vatni og gerðum það síðast í dag. Vatnið er tekið úr vatnsveitu bæjarins, eins ferkst og það best gerist. Þvottabíll okkar mun með mestu ánægju stoppa fyrir hverjum þeim bæjarbúa sem taka vill vatnssýni eða leggja í að smakka vatnið. Bílstjórinn er viljugur að sýna fram á gæði vatnsins með smakkprufu hvenær sem er.

Þeir sem hugsanlega enn efast geta fengið að fylgjast með bílnum taka vatn niðri á Óseyri og smakkað vatnið á staðnum. Einnig má hafa beint samband við bílstjórann í síma 897-3258“

 Sem sagt málið er afgreitt það er kranavatn sem notað er!

Nýjast