Á ábyrgð eigenda húsa að öryggismál séu i lagi
„Okkar tilfinning er sú að ástandið sé ekki verra en það var,“ segir Maron Berg Pétursson varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu á Akureyri um svonefnda óleyfisbúsetu á starfssvæði liðsins. Ástandið var kannað á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og í skýrslu sem kom út árið 2021 kom fram að um 80 manns á Norðurlandi eystra búi í ósamþykktu húsnæði.
Maron segir að orðið óleyfisbúseta dragi upp nokkuð dökka mynd en í flestum tilvikum vanti nokkur atriði upp á til að fá húsnæði samþykkt. „Það þarf alls ekki allt að vera ómögulegt í húsnæðinu, það eru stundum bara smáatriði sem þarf að kippa í liðinn en á meðan það er ekki gert þá fer búseta í húsnæði í flokk sem kallast óleyfisbúseta.“ segir Maron Berg.
Þeir 80 sem bjuggu í húsnæði sem ekki uppfylltu öll tilskilin leyfi til búsetu voru flestir á Akureyri og segir Maron að könnunin hafi að hluta til náð til nágrannabyggðalaga þó allt Norðurland eystra sé undir. „Þetta var mikil vinna á sínum tíma, við fórum djúpt í þetta og fjöldinn allur af húsnæði var skoðaður hér í bænum og nágrenni. Ég held að ástandið hafi ekki versnað síðan þá, en við vitum auðvitað alls ekki allt. Við reynum hvað við getum að vera vakandi fyrir þessu og þiggjum ábendingar frá almenningi ef grunsemdir vakna,“ segir hann.
Oft sé um að ræða að fólk búi í húsnæði sem skilgreint er sem iðnaðarhúsnæði, en uppfyllir ekki reglugerð um íbúðarhúsnæði og því megi ekki búa í húsnæðinu þó svo að ekkert annað sé við það að athuga. „Út frá okkar bestu vitund teljum við að ástandið sé ekki eins slæmt og umræðan hefur verið síðustu vikur á okkar svæði. Við bregðumst að sjálfsögðu við ef okkur berast ábendingar, enda um grafalvarlegt mál að ræða.“
Hann segir ábyrgð liggja hjá eigendum húsanna að hafa öryggismál í lagi. „Ef breytingar eru gerðar á húsnæðinu þá er það á ábyrgð eigenda að það sé samþykkt með tilliti til brunavarna og öryggis.“