70 kíló af rusli síuð frá á sólarhring

Hreinsistöðin er á landfyllingu við Sandgerðisbót. Þar er fráveituvatn grófhreinsað, grófa efnið sig…
Hreinsistöðin er á landfyllingu við Sandgerðisbót. Þar er fráveituvatn grófhreinsað, grófa efnið sigtað frá, því pakkað saman og fært til urðunar. Magnið er um 70 kíló á sólahring.

Um það bil 70 kíló af föstum efnum, rusli af ýmsu tagi eru síuð úr fráveituvatni sem kemur frá híbýlum á Akureyri, á hverjum sólarhring eða ríflega 2000 kíló á mánuði.  Svo hefur verið  frá því rekstur hreinsistöðvar við Sandgerðisbót hófst í lok síðastliðins árs. Magnið á ársgrundvelli gæti verið um 25 tonn sem tekið er frá en hefði annars endað úti í Eyjafirði.

Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku segir gagnsemi hreinsistöðvar hafa sannað sig, en með tilkomu hennar er strandlengjan við bæinn hreinni og þar finnst vart lengur mengun. Norðurorka gerir gerlamælingar fjórum sinnum á ári á 16 stöðum meðfram ströndinni frá Krossanesi og inn að Leirubrú. Heilbrigðiseftirlitið tekur sömuleiðis sýni reglulega á sama svæði.

Þremur sýnatökum er lokið á þessu ári, í febrúar, apríl og júlí og segir Helgi að niðurstöður séu þær að í öllum 48 sýnum nema einu hafi niðurstöður verið í samræmi við reglugerðir sem fráveitan starfar eftir. Annars vegar reglugerð um fráveitur og skólp og hins vegar reglugerð um baðstaði í náttúrunni, en svo virðist sem sú fyrrnefnda sé aðeins strangri en sú um baðstaði í náttúrunni að sögn Helga.

Leitt út um 400 metra langa útrás

Hreinsistöðin er á landfyllingu við Sandgerðisbót og þar er fráveituvatn grófhreinsað, grófa efnið er sigtað frá, því pakkað saman og fært til urðunar. Hreinsað fráveituvatn er leitt út um 400 metra langa útrás  út í Eyjafjörð og nær þannig út í sjávarstraum sem flytur vatnið út fjörðinn en ekki inn með ströndinni.  Helgi segir að því hafi dregið verulega úr magni saurkóligerla í fjörum við Akureyri. „Það verður líka að horfa til þess að við búum við langan þröngan fjörð þar sem rík hefð er fyrir matvælaiðnaði, þannig að þessir hlutir verða að vera í góðu lagi,“ segir hann.

Óvenjulítið vatn í holræsakerfinu

Óvenjulítið vatn er um þessar mundir í  holræsakerfi Akureyrar og veltir Helgi fyrir sér hvort verið geti að rusl sitji þar eftir og  skolist út þegar vatnsmagnið eykst á ný. Undanfarnar vikur þegar hlýindi hafa verið hvað mest hefur einungis svart- og grávatn skilað sér um kerfið, þ.e. það sem fer um salerni, eldhúsin, sturtur og böðin. Bakrásarvatnið er lítið sem ekki neitt enda fæstir að kynda hús sín umtalsvert í hitanum. Helgi segir að þegar geri asahláku sjáist tölur eins og 830 lítrar á sekúndu en þær tölur sem ríkjandi hafa verið í júlí eru um það bil 140 lítrar á sekúndu. „Það hefur ekkert regnvatn komið inn í kerfið í langan tíma,“ segir Helgi.

Hreinsistöðin er á landfyllingu við Sandgerðisbót. Þar er fráveituvatn grófhreinsað, grófa efnið sigtað frá, því pakkað saman og fært til urðunar. Magnið er um 70 kíló á mánuði, allskyns drasl sem lendir ofan í klósettinu, eyrnapinnar, blautklútar og fleira sem ekki á þangað að fara. „Klósettið er ekki ruslafata“ segir Helgi.

-mþþ

Nýjast