25 ár frá því að fjarkennsla hófst við Háskólann á Akureyri
Á þessu ári eru liðin 25 ár síðan fjarkennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskólann á Akureyri en haustið 1998 hóf hópur stúdenta nám í hjúkrunarfræði í fjarnámi frá Ísafirði. Þá var kennt samtímis á Ísafirði og Akureyri í gegnum myndfundabúnað. Að því tilefni stóðu Háskólinn á Akureyri og Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um fjarnám og fjarkennslu föstudaginn 16. júní í Háskólasetri Vestfjarða.
„Það var einstaklega skemmtilegt að hlusta á sögur frumkvöðlanna af því hversu hratt af stað var farið og hversu samheldið samfélagið allt var í því að koma á fyrsta árgangi fjarnema í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þar lögðu margir hönd á plóginn en konur voru áberandi í þessu frumkvöðlastarfi, bæði sem stjórnendur við HA, stúdentar og starfsfólk Háskólaseturs Vestfjarða,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.
Jákvæð áhrif á byggðaþróun í landinu
Erindi ráðstefnunnar voru fjölbreytt en rauði þráður allra erinda var fjarnám. „Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað fjarkennsla síðustu 25 ára hefur gert fyrir landsbyggðina. Með fjarkennslu hefur fjölskyldufólk fengið tækifæri til að stunda nám og mennta sig í heimabyggð, sem hefur einnig haft jákvæð áhrif á byggðaþróun í landinu,“ segir Sigrún Sigurðardóttir, ein skipuleggjenda ráðstefnunnar.
Jákvæður og skemmtilegur andi var yfir ráðstefnunni þar sem sterkt kom fram hversu mikil breyting fjarnámið var fyrir íbúa Ísafjarðar og hversu stórt skref það var að hefja fjarkennslu fyrir íslenskt háskólakerfi. Upp frá þessu fór fjarnámið við HA að þróast, bæði hvað varðar breidd — en í dag eru allar námsgráður kenndar rafrænt —, auk þess sem námsformið hefur þróast í gegnum árin. Í dag er talað um sveigjanlegt nám frekar en fjarnám.
Ekki unnt að treysta á að allar háskólastofnanir muni opna fyrir aðgengi
„Það er augljóst að það er tækifæri til enn frekri sóknar á næstu árum. Þó svo að það sé ekki unnt að treysta á að allar háskólastofnanir landsins muni opna fyrir aðgengi að sínum stofnunum með sama hætti þá geta háskólar á norðurhluta landsins unnið enn betur saman til þess að tryggja opnara aðgengi að háskólum,“ segir Eyjólfur.
Rektor HA var einn þeirra sem flutti erindi á ráðstefnunni og lagði hann áherslu á að þeir sem starfa norðan heiða og við erfiðari samgöngur vinni saman, jafnvel sem einn háskóli — Háskóli Norðursins. „Slík stofnun gæti tengst enn frekar alþjóðlega við aðrar háskólastofnanir á norðlægum slóðum, til dæmis í Norður Noregi, Norður Skotlandi, Grænlandi, Færeyjum og á fleiri svæðum sem búa við svipuð skilyrði og þeir sem búa á norðurhluta Íslands,“ útskýrir Eyjólfur.
HA hefur sannað að unnt sé að veita hágæða nám með þessum hætti
Tuttugu og fimm ára saga sveigjanlegs námsframboðs við Háskólann á Akureyri með frumkvöðlakrafti heimafólks á Ísafirði sannar svo sannarlega að það er hægt að grípa til aðgerða hratt og örugglega og hefja ferðalagið án þess endilega að vita nákvæmlega um áfangastað, nema að við viljum styðja við og bæta rétt allra til að geta sótt háskólanám frá sinni heimabyggð. „Háskólinn á Akureyri hefur með námsfyrirkomulagi sínu sannað að unnt sé að veita hágæða nám með þessum hætti, nám sem er í virkri tengingu við nýjustu rannsóknir á hverju fræðasviði en jafnframt nýtir krafta hvers samfélags fyrir sig til frekari rannsókna og uppbyggingu þekkingar,“ segir Eyjólfur að lokum.