109. þáttur 5. desember 2013
Aðventa, jól og jólabarnið
Jólum mínum uni ég enn,
og þótt stolið hafi
hæstum guði heimskir menn
hef eg til þess rökin tvenn
að á sælum sanni er enginn vafi.
Jónas Hallgrímsson orti þetta ljóð á aðventunni 1844, síðasta árið sem lifði. Kvæðið nefndi hann Jólavísu og sýnir að hann hefur haldið barnatrú sinni til dauðadags. Orðið aðventa kemur fyrir í íslenskum ritum þegar á 14. öld og er komið af latneska nafnorðinu adventus sem merkir koma og vísar til komu Jesú Krists í heiminn. Á latínu er aðventan nefnd Adventus Domini, þ.e. koma frelsarans. Eins og lesendur vita hefst aðventan fjórða sunnudag fyrir jól sem að þessu sinni bar upp á fullveldisdag Íslendina 1. desember.
Merking orðsins jól er á huldu. Upphaflega er orðið notað um heiðið miðsvetrarblót sem haldið var þegar sól fór að hækka á lofti eftir vetrarsólhvörf. Orðið kemur fyrir í flestum germönskum málum. Í gotnesku, elsta germanska máli sem varðveist hefur, kemur fyrir orðið fruma-jiuleis og er notað um nóvembermánuð. Í fornensku er til orðið géol, sem í síðari tíma ensku er orðið yule, þótt orðið Christmas, Kristsmessa, sé nú notað um jólin í ensku eins og öll heimsbyggðin veit. Danir, Norðmenn og Svíar notað orðið jul með misminandi framburði eftir löndum og landsvæðum, og frændur okkar og vinir Færeyingar nota orðið jól og bera fram með svipuðu tvíhljóði og við Íslendingar. Hins vegar heita jólin á þýsku Weinachten - hin helga nótt. Á latínu eru jólin kölluð Christi Natalis, Natalis Domini eða festum Natale og í rómönskum málum eru orð sem af þessu dregin: Natale á ítösku og Nadel á rúmensku, Noël á frönsku og Navidad á spænsku.
Samanburðarmálfræðingar telja orðið jóln, sem í fornu máli er notað um hin heiðnu goð, skylt orðinu jól. Af orðinu jóln er dregið eitt af mörgum heitum Óðins, Jólnir, sem talið er merkja sá sem ræður fyrir goðunum. Grunnmerking orðsins er eftir sem áður óljós. Sumir samanburðarmálfræðingar telja að mánaðarheitið ýlir, sem oftast mun hafa verið notað um nóvembermánuð, sé skylt orðinu jól. En hvað sem merkingu orðsins líður notuðu norrænir menn áfram orðið jól um fæðingarhátíð frelsarans, hugsanlega vegna einangrunar og þekkingarleysis á grunnþáttum kristinnar trúar.
Fyrir mörgum árum notaði Ólafur Skúlason, þáverandi biskup Íslands, orðið jólabarn um sjálfan sig í viðtali við ríkissjónvarpið á Þorláksmessu - sagðist vera mikið jólabarn. Hafa margir tekið þetta upp eftir honum. Fyrsta dæmið um orðið jólabarn í Ritmálsskrá Orðabókar Háskóla Íslands er úr Nýársnóttinni eftir Indriða Einarsson frá því um 1872 þar sem segir: Að álfar eru einskonar jólabörn, og halda hátíðir þá ... hlýtur að vera í sambandi við trúna. Árni Óla notar orðið jólabarn í Lesbók Morgunblaðsins þar sem stendur: Þessi kapellubygging var hafin í einlægri og auðmjúkri trú á blessað jólabarnið. Hér merkir jólabarnið frelsarann Jesú Krist og það verður að teljast eðlileg notkun orðsins.
Tryggvi Gíslason