103. þáttur 24. október 2013
Fegursta orð á íslensku
Hugvísindasvið Háskóla Íslands og RÚV hafa beðið almenning að benda á fegurstu orð á íslensku og gera grein fyrir vali sínu. Tilgangurinn er að safna tillögum um fegurstu orð tungumálsins ásamt röksemdum fyrir vali hvers og eins. Tilgangurinn er einnig að vekja fólk til umhugsunar um íslenska tungu og efla vitund um eðli, notkun og veruleika málsins, fegurð þess og mikilvægi og minna á stöðu íslenskunnar, bæði í alþjóðlegu samhengi en einnig á Íslandi, þar sem fjöldi fólks á sér annað móðurmál, m.a. íslenskt táknmál, eins og segir á vefsíðu könnunarinnar.
Hugmyndin er sannarlega góð og tilgangurinn góður: að vekja fólk til umhugsunar um íslenska tungu og efla vitund um eðli, notkun og veruleika tungumálsins, en vitundin um málið - málvitundin - er grundvöllur þess að geta tjáð hugsanir sínar og tilfinningar og fundið þeim réttan farveg og valið réttu orðin - orðin sem eiga við.
Hannes Pétursson hefur í ljóðum sínum velt fyrir sér orðunum. Í kvæðinu Orðin sem ég aldrei finn úr ljóðabókinni Í sumardölum frá árinu 1959 segir:
Ég veit þau búa einhvers staðar öll,
en aldrei finn ég þeirra myrka helli
og þó svo ég leiti fram í efstu elli
um úfna vegi: tungunnar bröttu fjöll.
Ég veit þau finnast aldrei. Engum mönnum
þau orð ég flyt sem geymi huga minn:
þágu frá aldinkjöti sætleik sinn
og særðu herslu og styrk úr úlfsins tönnum.
Skáldið segist aldrei munu finna orðin sem tjáð geta það sem hugur hans geymir. Orðin búi í myrkum helli hugans og vegir tungunnar séu úfnir og fjöll hennar brött og þau hafi fengið mátt sinn úr ólíkum áttum, sætleika úr aldinkjöti og styrk úr tönnum úlfsins. Erfitt sé því að segja hug sinn og tjá tilfinningar sínar.
Orð íslenskunnar eru mörg undrafögur - eins og orðið undrafagur. Ein ástæðan fyrir fegurð orðanna er gagnsæi málsins - þ.e.a.s. málnotandi skilur merkingu orða og orðstofna. En orð geta verið fögur á margan hátt. Þau geta verið hljómfögur og merkingarfögur og þau geta lýst einhverju fagurlega eða með áhrifamiklum hætti eða þau fela í sér hugsun eða minningu sem okkur þykir fögur - hugsanlega af því okkur þykir vænt um það sem minningin geymir.
Sem fegursta orð tungunnar hefur fólk nefnt orð eins og ljósmóðir og dalalæða. Þá hefur mörgum orðið hugsað til orða sem Jónas Hallgrímsson notar í ljóðum sínum og sum eru nýyrði hans eins og: ástarblíður, blástirndur, borðfagur, bunulækur, dagroði, dauðadjúp, fífilbrekka, fjörgjafarljós, foldarskart, grasahnoss, grátþögull, heldimmur, himinbjartur, hjartavörður, hyggjuþungur, jökulskalli, silfurglitaður, smáragrund, sólroðinn, svanahljómur, vinarbrjóst og vonarstund.
Til er orðið augnfró um lítið, einært blóm, hvítleitt með fjólubláum æðum og gulan blett innarlega á neðri vör sem vex á mögru graslendi um allt land og blómgast í júlí og ágúst og gleður augað. Þetta orð er eitt af þúsundum fagurra orða á íslenska tungu.
Tryggvi Gíslason