10 ár frá stofnun Landssamtaka íslenskra stúdenta á Akureyri

Fulltrúar SHA á Landsþingi: Silja Rún Friðriksdóttir,  Erla Salome Óskarsdóttir, Dagmar Ólína Gunnla…
Fulltrúar SHA á Landsþingi: Silja Rún Friðriksdóttir, Erla Salome Óskarsdóttir, Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, Lilja Margrét Óskarsdóttir og Sólveig Birna Elísabetardóttir

Það var kraftur í stúdentum þegar landsþing LÍS – Landssamtaka íslenskra stúdenta – fór fram í Háskólanum á Akureyri dagana 29. mars til 1. apríl. Á landsþingi LÍS koma saman stúdentafulltrúar frá aðildarfélögum LÍS, þ.e. frá öllum háskólum landsins, sem og fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþingið er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi og þar gefst færi á að skiptast á skoðunum, rökræða og fá innsýn í baráttumál stúdenta á öðrum sviðum.

Áskoranir stúdenta

Un

Yfirskrift þingsins var Fjölskyldumál stúdenta og hlýddu stúdentar á fyrirlestra og sóttu vinnustofur tengdar fjölskyldumálum stúdenta og þeim áskorunum sem þeim fylgja.

„Það var frábært að fá tækifæri til að ræða fjölskyldumál stúdenta en það sem stóð upp úr og situr eftir hjá mér er hvað Háskólinn á Akureyri er framarlega í þeim málum, þó svo að við getum alltaf gert betur þá mætir HA fjölskyldufólki einstaklega vel með sveigjanlega námsfyrirkomulaginu. Í samantekt af vinnustofum var það skýrt að stúdentar kalla eftir sveigjanleika þar sem fyrirlestrar eru teknir upp og að það sé ekki skyldumæting í kennslustundir. Það er mikilvæg krafa til þess að geta mætt þörfum fjölskyldufólks og þannig stuðlað að auknu menntunarstigi þjóðarinnar,“ segir Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti SHA sem sótti þingið.

LÍS stofnað á Akureyri fyrir 10 árum

Ályktað um stöðu foreldra í námi, Egill Bjarni Friðjónsson tók myndina

Aðildarfélög LÍS skiptast á að vera gestgjafar landsþingsins en samtökin voru stofnuð í nóvember árið 2013 á Akureyri. Því gaf það auga leið að Stúdentafélag Háskólans á Akureyri (SHA) yrði gestgjafi landsþingsins í ár. Einnig var boðið til 10 ára afmælisveislu samtakanna á föstudagskvöldinu.

Landsþinginu lauk með kosningu í framkvæmdastjórn samtakanna, sem stjórnar daglegu starfi í samræmi við lög þess, stefnur og samþykktir. Framkvæmdastjórn sækir umboð sitt til fulltrúaráðs en í því eiga sæti fulltrúar allra aðildarfélaga LÍS. Alexandra Ýr Van Erven var endurkjörin forseti samtakanna, Maggi Snorrason varaforseti og Lilja Margrét Óskarsdóttir gæðastjóri. Mun ný stjórn taka við í maí/júní en enn á eftir að manna nokkur embætti.

„Ég er virkilega stolt af Lilju Margréti að hafa hlotið kjör í framkvæmdastjórn en hún er stúdent í iðjuþjálfunarfræði við HA og var formaður kynningarnefndar. Kjör hennar sýnir hversu öfluga stúdenta við eigum auk þess sem hún er nýkjörinn fulltrúi stúdenta í Gæðaráði HA svo ég hef trú á því að þetta sé frábær samsetning fyrir hana og heillaskref fyrir stúdenta,“ segir Sólveig Birna að lokum.

Nýjast