Reynsla mín af smíðakennslu á Akureyri. Aldarfjórðungur í baksýn.
Í Menntastefnu Akureyrarbæjar segir: „Verkviti er gert hátt undir höfði til þess að börn nái í síauknum mæli að tengja saman hug og hönd í skapandi umhverfi. Akureyrarbær hefur ríkan metnað til þess að í hverjum skóla starfi hæft og öflugt fólk og að eftirsóknarvert sé að starfa þar. Stuðningur skólayfirvalda við starfsþróun leikur þar stórt hlutverk“. Skipulag skóla gerir ráð fyrir samvinnu starfsfólks, sveigjanleika í skipulagi, teymiskennslu og samþættingu námsgreina“ (Menntastefna Akureyrarbæjar, 2020-2025).
Það er ekki óþekkt að bæjaryfirvöld berji sér á brjóst og hampi áherslu á list- og verkgreinar í bænum og er það vel. Ég ætla hér að fara yfir hvernig þessi áhersla hefur birst mér sem smíðakennara gegnum árin. Því miður hef ég varla séð þess nein merki að bæjarfulltrúar hafi hugmynd um hvað fer fram í smíðastofum bæjarins og jafnvel ekki stjórnendur skólanna heldur.
Það var haustið 1998 sem ég tókst fyrst á við smíðakennslu í grunnskóla. Var þá hálfnaður í námi til kennsluréttinda. Án þeirrar menntunar hefði ég ekki viljað vera þó hún hefði dugað mér skammt án verkkunnáttu húsgagnasmiðs sem ég hafði með mér í nesti. Þar að auki hafði ég sótt hátt á annan tug námskeiða í ýmiskonar handverki, aðallega skandinavísku, bæði hérlendis og erlendis.
Þegar ég byrjaði að kenna hafði ég lítið kynnst því merka riti sem heitir Aðalnámskrá grunnskóla, en þá var hún í endurskoðun. Fyrirmælin frá skólastjóra voru: „Gerðu bara eitthvað með þeim“. Þar með hófst vandræðalegt og afar lærdómsríkt ferli. Tók þá þrjú ár samfellt að losna við hnútinn úr maganum. Nokkur ár tók það mig að átta mig á hvað hentaði nemendum enda er það mjög misjafnt eftir börnum sem öll hafa mismunandi þarfir. Kom mér þó mest á óvart að unglingarnir unnu gjarnan best ef verkefnin voru nógu krefjandi.
Fljótlega þróaðist kennslan á þá vegu, nema kannski í efstu bekkjunum, að allir í hverjum hóp byrjuðu á því sama og var það breytilegt eftir árgöngum. Þá voru æfðar ákveðnar aðferðir og verkfæranotkun, fleiri verkfæri og meiri kröfur með hækkandi aldri. Um samkennslu var ekki að ræða nema í fyrsta tíma. Eftir það voru engir tveir á sama stað og var þá eingöngu um einstaklingskennslu að ræða. Takmörk eru fyrir því hvað einn einstaklingur kemst yfir að aðstoða marga á áttatíu mínútum.
Mér hefur því miður fundist verkkunnátta barnanna hafa farið hnignandi með árunum. Þjóðfélagsbreytingar hafa gert það að verkum að það verður sífellt sjaldgæfara að börn fylgi fullorðnum til vinnu. Svo lenda þau allt í einu á vinnumarkaðnum og hafa þá ekki hugmynd um hvernig vinna fer fram. T.d. tók ég til þess síðustu fimm árin eða svo að ég þurfti að kenna börnunum að reka nagla. Þau höfðu augljóslega ekki séð það gert að ég tali nú ekki um að nota sög. Að kunna slíkt er grunnurinn að því að geta bjargað sér sjálfur, rétt eins og að læra að lesa og skrifa, og allir vita hversu mikilvægt það er.
Mín upplifun er sú að nemendur hafi almennt farið ánægðir úr stofunni að loknum smíðatíma. Að sjálfsögðu eru ávallt undantekningar í hverjum hóp, en svoleiðis er það bara. Fyrir mér var kennslan bæði skemmtileg og gefandi, en jafnframt krefjandi. Allan minn starfsferil sem kennari fékk ég frelsi til að ráða hvað ég kenndi og hvernig, og hafði þó að sjálfsögðu Aðalnámskrána mér til hliðsjónar. Hversu frjálsleg hún er hentaði mér vel.
Framboð á endurmenntun fyrir verkgreinakennara hefur verið hverfandi og er harðsótt að fá styrki til að sækja námskeið annað þegar og ef þau hafa verið í boði. Það hefur hjálpað að smíðakennarar hér í Eyjafirði og nágrenni, frá Stórutjörnum til Siglufjarðar, hafa hittst og miðlað þekkingu sín á milli. Hópastærðir í smíðakennslu hafa oft verið til umræðu á þessum fundum og allir sammála um að ef fjöldinn fer yfir tíu verður einhver afgangs. Það eina sem hægt er að gera er að láta það ekki alltaf lenda á þeim sömu, en samt sem áður verður sú þjónusta sem hver nemandi fær í heildina skert því sem fjöldanum nemur, miðað við hver hún ætti að vera. Stjórnendur hafa nú í seinni tíð leitast við að stækka hópana þrátt fyrir andmæli. Þegar hópurinn telur jafnvel fimmtán eða fleiri nemendur er nær ómögulegt fyrir einn kennara að sinna einstaklingsbundinni kennslu svo vel sé og gæta um leið að öryggi barnanna. Því það eru ansi margir möguleikar til þess að fara sér að voða í smíðastofu.
Í verkgreinakennslu fær kennari ákveðna upphæð til efniskaupa sem hann ýmist pantar eða fer sjálfur og sækir. Flestar smíðastofur hafa að minnsta kosti lágmarksaðstöðu, sem mætti vera betri, til að forvinna efni fyrir nemendur. Þegar ég hóf smíðakennslu haustið 1998 var kvótinn u.þ.b. 1000 kr. fyrir hvern nemanda. Eins og allir vita hefur verðlag „staðið í stað“ síðustu tuttugu og fimm árin, enda var efniskvótinn nánast sama upphæð þegar ég lét af störfum vegna aldurs 2022. Á þessum árum hafði hann að vísu lækkað um tíma niður í 750 kr á nemanda. Hver sem vill getur svo tekið saman hversu mikið efni má fá fyrir þessa upphæð og séð hvar áherslan liggur. Til að hafa eitthvað í höndunum þegar kvótinn hrökk ekki til var brugðið á það ráð að ganga til nærliggjandi skógar eftir efni. Það gaf jafnframt tækifæri til að útikennslu með börnunum sem er ómetanlegt. Dásamlegt er að sjá þá stökkbreytingu sem verður á krökkunum við að komast út í skóg.
Alla mína starfsævi sem kennari hef ég kennt við tvo skóla. Fyrst í einni stofu, en eftir að seinni skólinn var byggður fór ég á milli. Þegar ég lét af störfum var ekki haft fyrir því í minni skólanum að fá annan smíðakennara heldur var hreinsað út úr stofunni og henni breytt í leikskóla. Þar var ómetanlegum verðmætum trillað út í gám til „varðveislu“. Nokkuð víst er að þeir sem framkvæmdu útburðinn hafa ekki haft hugmynd um hvað þeir voru með í höndunum. Þar á meðal voru tæki frá stofnun skólans fyrir sjötíu árum ásamt allri nútímavæðingu tækjabúnaðarins síðustu tuttugu árin. Þó ég ætti þarna engra hagsmuna að gæta finnst mér þetta líkjast því þegar ég upplifði húsbruna á vinnustað.
Nú er svo komið að félagi minn í hinum skólanum hefur fært sig um set. Ekkert skrítið þar sem fjöldi nemenda í hverjum hóp er orðinn of mikill. Mér finnst því rauninni nú að mest af því sem ég hef verið að byggja upp sem smíðakennari öll þessi ár hafi verið brotið niður.
Samþætting verkgreina við aðrar námsgreinar var í mýflugumynd, þann tíma sem ég var við smíðakennslu. Ekki vegna áhugaleysis heldur vegna annríkis kennara. Til þess að samþætta námsgreinar svo vel sé þarf annað skipulag, e.t.v. líkara því sem er á þemadögum. Kannski ættu allir skóladagar að vera þemadagar. Við skólayfirvöld og bæjarstjórn vil ég segja: “Hlúið að smíðakennslu og öðrum verkgreinum. Þær má ekki missa, enda er hægur vandi að kenna allar aðrar greinar skólans í gegnum þær og með þeim er oft hægt að ná til þeirra sem finna sig ekki í hefðbundnu skólastarfi. Til þess að efla verkgreinakennslu og samþætta hana öðrum námsgreinum þurfa kennarar bara tíma og tækifæri til að tala saman”.
Ingvar Engilbertsson, smíðakennari