Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Gleðilega bruna- og svikalausa aðventu og jól
Aðventan er vissulega einn skemmtilegasti tími ársins. Tími til að njóta með fjölskyldu og vinum. Svo rennir nýja árið í hlað með nýju upphafi. En hvorki slys, brunar né svik gera boð á undan sér.
ELDVARNIR
Á þessum árstíma þegar myrkrið umlykur er notalegt að vera með kertaljós og jólaseríur. Á mínu heimili er það þannig að sumu heimilisfólki finnst nóg um.
Alltaf þarf að fara að fara varlega með kerti og jólaskreytingar.
Það er auðvelt að gleyma logandi kerti. Þá geta litlar manneskjur heillast af ljósinu og farið að fikta. Rafmagsnljós geta einnig verið varasöm, t.d. ef þau uppfylla ekki öryggiskröfur eða eru úr sér gengin. Ef ég kaupi afar ódýrt dót, sem er flutt heimsálfa á milli, þá má ég reikna með að gæðin og öryggið séu í takt við það.
Á undanförnum misserum hafa orðið hörmuleg dauðsföll vegna bruna þar sem brunavörnum hefur verið ábótavant. Á síðasta ári létust þrír einstaklingar i bruna auk þess sem útköllum hefur fjölgað.
Forvarnir geta skilið á milli lífs og dauða
Afar mikilvægt er að fara yfir eldhættu, flóttaleiðir og viðbrögð með yngri kynslóðum.
Skiptum reglulega um batterí í reykskynjurum og höfum þá frekar fleiri en færri. Látum fagmenn yfirfara slökkvitæki reglulega og höfum eldvarnarteppi á góðum stað.
SVIKAVARNIR – heiðarleg tortryggni og gagnrýnin hugsun
Það er almennt mannkostur að treysta fólki og trúa því góða. En er kemur að fjármálum þá er það heiðarleg tortryggni og gagnrýnin hugsun sem getur komið í veg fyrir svik og þar með fjárhagslegt tap og svekkelsi.
Fallið aldrei fyrir gylliboðum sem eru of góð til að vera sönn. Þau eru trúlega svik, of góð til að vera sönn.
Í dag eru þetta oft alþjóðlegir, skipulagðir glæpahringir, sem beita nýjustu tækni. Oft mjög trúverðugir og veikasti hlekkurinn erum við mannfólkið.
Sýnið sérstaka aðgæslu
- RAFRÆN SKILRIKI. Verið sérstaklega tortryggin gagnvart öllu er snýr að þeim. Aðferðir svikara til að komast þar inn verða sífellt algengari, þróaðri og bífræfnari.
- Aldrei samþykkja óþekktar innskráningar eða aðgerðir í netbanka/appi s.s. millifærslur og kortafærslur.
- Fylgist með kortafærslum. Kortasvik alltaf algeng, t.d. kort sem hafa verið notuð á ákveðnum síðum verða misnotuð í kjölfarið. Góð regla að frysta kort sem eru ekki notuð daglega, það er einfalt í símaappi eða heimabanka.
- Ekki gefa upp bankaupplýsingar, kortanúmer og pinnúmer til óþekktra aðila.
- Ekki hlaða niður óþekktum forritum eða opna varasama hlekki.
- Aldrei senda peninga til aðila sem þið hafið kynnst á netinu. Oft er um tilbúnar persónur að ræða sem geta virkað afar trúverðugar. Fjárglæframenn eru vissulega fremur vinalegir og góðir í að tala fólk til.
- Aldrei samþykkja að verða milliliðir í flóknum fjármálagerningum sem þið þekkið ekki, jafnvel gegn greiðslu.
- Hafðu strax samband við bankann þinn og lögreglu ef þú telur að þú hafir orðið fyrir svikum.