20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ekki benda á mig
Brátt göngum við til kosninga einu sinni enn. Í annað skipti á þessu ári. Síðast tókst okkur vel til og völdum við okkur forseta sem við verðum stolt af.
Núna eru vonbiðlarnir þeir sem vilja setjast á Alþingi Íslendinga og sýna þar hvað í þeim býr.
Ljóst var frá upphafi að tíminn væri það naumur að ekki gæfist tími til þess að viðhafa prófkjör. Því var gripið til uppstillinga en þegar það er gert, gefst möguleiki á að tefla fram einstaklingum sem kannski myndu ekki vilja taka þátt í prófkjörum eða myndu ekki ná þar tilskyldum árangri.
Þetta þarf ekki að vera slæmt eða hvað? Til upprifjunar var núverandi forsætisráðherra stillt upp í öruggt sæti þegar hann settist fyrst á þing og ekki orð um það meir.
Niðurstaðan núna er að við fengum að sjá ný andlit – eða ný/gömul – eða fræg/þekkt. Margir sem gert hafa garðinn frægan á öðrum vettvangi en þeim pólitíska. Ef við værum í þeirri stöðu að vera að ráða þá í vinnu til okkar myndum við vilja fá dæmi um árangur í sambærilegu starfi, sem ekki er hægt núna.
Ef við látum hugann reika um hvað þetta getur leitt af sér er það í versta falli að þeim óvönu leiðist þófið þegar á hólminn er komið. Mér er nefnilega sagt að hlutirnir gerist afar hægt í stjórnkerfinu og að langur tími geti liðið þar til þú getur sagst hafa náð árangri. Við þurfum því að passa að haka við þá sem við teljum líklega til að búa yfir mikilli þolinmæði og hafa gott langlundargeð.
Ef þeim tekst að komast yfir þann hjalla sem getur talist til reynslutímabils, munu þeir vonandi verða í essinu sínu og láta duglega til sín taka. Svo er líka möguleiki á að þeir fari að síga mjúklega í mótið sem gerir úr þeim hinn dæmigerða þingmann sem greiðir atkvæði eftir sinni flokkslínu og segir ekkert vanhugsað sem styggir kjósendur.
Þeir byrja að tala í „frösum“ og læra að firra sig ábyrgð. Við búum nefnilega við stjórnkerfi þar sem ráðherraábyrgðin er alger. Í þriggja flokka stjórn eins og þeirri sem nú er farin frá völdum, gátu ráðherrar tekið nokkuð einhliða ákvarðanir í sínum ráðuneytum og gerðu það þrátt fyrir vissu um að samstarfsflokkar væru þeim ekki sammála. Og nú, þegar samstarfinu líkur segja þeir „ekki benda á mig“ þegar rifjuð eru upp mál sem eru þeim óþægileg.
Málflutningur frambjóðenda nú er frekar hefðbundinn. Það málefni sem mest hefur verið í umræðunni er vinsælast. Þá gleymast málefni þeirra sem ekki hafa baráttuþrek til að koma sér á framfæri svo sem málefni eldra fólks. Fólksins okkar. Við erum nefnilega stöðugt í björgunarstörfum; að bregðast of seint við alls konar ástandi sem virðist alltaf koma á óvart.
Eitt er ljóst. Það stefnir í spennandi kosningar og líklegt er að við munum sjá nýtt stjórnarmynstur í næstu ríkisstjórn. Mikilvægt er að nýta kosningaréttinn svo göngum öll til kosninga og greiðum þeim atkvæði sem við treystum best!