Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera fyrirferðarmikil í umræðu um stöðu sveitanna. Enda var málefnið eitt helsta umræðuefni á haustfundum Bændasamtaka Íslands. Uppkaup og jarðasöfnun fjárfesta og samkeppnisstöðu landbúnaðar. Um stöðu ungra bænda og eldri bænda sem væru að afhenda bú sín til yngri kynslóða.
Í ritinu Ræktum Ísland, skýrslu Björns Bjarnasonar og Hlédísar Sveinsdóttur, sem unnin var fyrir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og er til grundvallar stefnumörkun Alþingis í landbúnaði, er efninu gerð verðug skil.
Auðveldum ættliðaskipti
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað flutt frumvörp um ýmsar aðgerðir til að auðvelda ættliðaskipti á bújörðum. Birgir Þórarinsson og fleiri lögðu fram frumvarp um afnám erfðafjárskatts á bújörðum og ekki hefur hlotið afgreiðslu Alþingis. Í greinargerð frumvarpsins er þess m.a. getið að taka verði mið af því að eldri bændur þurfi úrræði t.d. vegna slakra lífeyrisréttinda. Enda hafi fyrr á árum beinlínis verið settar skorður á heimildir bænda til að safna lífeyrisrétti.
Frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt sem Haraldur Benediktsson fv. alþingismaður og fleiri fluttu árið 2020 og var afgreitt á Alþingi 2021, snéri m.a. að meðferð á söluhagnaði, sölu bújarða.
Samfélagsbreytingar
Ekki verður um það deilt að samfélagsbreyting og aukin ásókn í bújarðir hafi ekki verið til að bæta hag bænda. Ótal dæmi eru um að „nýir” jarðeigendur hafa auðgað og styrkt sveitir. Það hafa og gert ýmis önnur verkefni á vegum stjórnvalda, eins og átak í lagningu jarðstrengja fyrir dreifveitu rafmagns, Aðgengi að 3ja fasa rafmagni hefur verið stórbætt. Þá skal ekki gleymt að ljósleiðarvæðing dreifbýlis hefur styrkt mjög búsetu og verðmætasköpun í sveitum. Enda er það svo að árið 2016 var í fyrsta sinn í um 100 ár, að íbúafjölgun varð í sveitum landsins. Þessar breytingar hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt á undanförnum árum.
Næsta stórátak þarf að vera bætt vegagerð og ný hugsun og nálgun í endurbótum tengivega og hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins flutt á undaförnum þingum frumvarp til laga um Samfélagsvegi sem því miður hefur ekki komið til afgreiðslu.
Nýliðunarstuðningur búvörusamninga
Við endurskoðun búvörusamninga á undanförnum árum hefur í raun verið viðurkennt að samkeppnisstaða landbúnaðar um jarðir hefur valdið erfiðleikum. Nýliðun í landbúnaði kemur okkur öllum við og íslenska þjóðin, í breyttri heimsmynd, verður að horfast í augu við að sjálft fullveldið er í húfi, hvernig íslenskum landbúnaði vegnar. Það verður hins vegar að beita öðrum aðferðum en bara beinum framlögum úr ríkissjóði til að tryggja slíkt. Grundvallaratriði er að afkoma bænda verði traust. Til þarf að koma við endurskoðun búvörusamninga, mun víðtækari aðgerð en beinn nýliðunarstuðningur. Ungum bændum þurfa að standa til boða , líkt og öðrum landsmönnum, almennar aðgerðir í húsnæðismálum, eins og stofnfjárframlög og/eða hlutdeildarlán til kaupa áíbúðarhúsnæði. Einnig má með markvissum hætti einnig beita skattkerfinu, sterkum hvötum til að eldri kynslóð bænda hafi hag af því að verða hluti af lausninni, með því að viðurkenna að söluverð búa og jarða er séreignarsparnaður þeirra. Áhuga vantar ekki hjá ungu fólki að hasla sér völl í landbúnaði.
Tækifærin eru til staðar
Í skýrslu stýrihóps á vegum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem kom út sumarið 2021. er m.a. umfjöllun um breytingar og meðferð á heimildum til að fara um land bænda. Má þar strax koma auga á löngu tímabæra breytingu á samningum við bændur um byggingu á orkuflutningskerfinu, sem krefst að þess að farið sé um lönd bænda. Það er löngu tímabært að semja við bændur á grundvelli eignarréttar þeirra. Að land undir línulagnir verði leigt og þannig verði til lengri eða skemmri tíma tekjur til jarðanna/bænda, í sérstökum samningum, sem bæði bæta hag þeirra og ekki síður tryggja betur hagsmuni sveitafélaga.
Í skýrslunni kemur einnig fram að innleiddar hafi verið rýmri heimildir fyrir íbúa innan EES til landakaupa á Íslandi og mun rýmri reglur en gilda innan EES um heimildir til viðskipta á jörðum.
Ásókn í bújarðir virðist nú vera drifin af krafti mögulegrar verðmætasköpunar í loftslagsmálum. Skapa verður trausta umgjörð á raunbindingu og viðurkennda bindingu kolefnis og þannig að undirbyggja að bændur sjálfir geti nýtt tækifæri í þeim efnum. Fjármögnun til fjárfestinga í landbúnaði er einn þáttur og hvernig verðmætt landbúnaðarland getur skapað hagkvæmari lánamöguleika.
Skyldur jarðeigenda
En það verður líka spyrja um skyldur jarðeigenda. Skyldur jarðeiganda og ábúenda eru til staðar í nokkrum aðskildum lagabálkum. Lög um girðingar, löggjöf um hreinsun landa og lengi mætti telja og því miður eru ekki allir jarðeigendur meðvitaðir um slíkt með áhrif þeirra á samfélög sveitanna. Árekstrar eru þekktir og það á ekkert endilega við „nýja” jarðeigendur og líklega er ríkið sjálft sem stærsti jarðeigandi á Íslandi þar helsta vandamálið. Fordæmi í lögum um sameign húsa, fjölbýlishúsa, gæti þar verið fyrirmynd.
Engin vafi er á eignarhald bænda sjálfra á bújörðum sínum, sem raunar er ekki mjög löngu til komið, almennt eða rúmlega 100 ár, tryggir hag þeirra best. Þegar til framfara horfir í íslenskum landbúnaði og sveitum verður Sjálfstæðisflokkurinn hér eftir sem hingað vera til staðar.
Njáll Trausti Friðbertsson
Höfundur skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi