30. október - 6. nóember - Tbl 44
Tvöfalt afmæli hjá Aðalheiði S. Eysteinsdóttur í ár
„Þetta hefur verið virkilega gott og skemmtilegt ár,“ segir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem á tvöfalt afmæli á þessu ári, hún varð 60 ára fyrr í sumar og átti 30 ára útskriftarafmæli frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Hún fagnaði tímamótunum með því að bjóða landsmönnum upp á 60 gjöringa á 6 dögum hér og hvar um landið. Sýning hennar, Vegamót stendur yfir í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og lýkur í næstu viku en hún á einnig verk á samsýningu norðlenskra listamanna í Listasafninu á Akureyri. Næst liggur leið Aðalheiðar til Danmerkur þar sem hún verður við listsköpun og sýningarhald.
Aðalheiður er fædd á Siglufirði í júní 1963. Hún fluttist til Akureyrar 1986 og stundaði nám við Myndlistarskólann á Akureyri. Því lauk hún árið 1993 eða fyrir 30 árum. „Það má segja að listamaður standi á vegamótum þegar horft er yfir 30 ára sköpunarferil,“ segir hún en sýningin í Hofi var sett upp í tilefni af þriggja áratuga störfum hennar á sviði myndlistar. Aðalheiður hefur á sínum langa ferli sett upp ríflega 200 einkasýningar í 14 löndum. Verk hennar eru víða til m.a. á söfnum hér á landi og erlendis. Aðalheiður rak Kompuna, gallerí á Akureyri og hefur nú opnað gallerí í heimabæ sínum, Siglufirði með sama nafni. Hún tók virkan þátt í uppbyggingu Listagilsins á Akureyri og var einn af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Aðalheiður var bæjarlistamaður á Akureyri árið 2000 og árið 2022 bæjarlistamaður Fjallabyggðar. Hún hefur verið þátttakandi í Dieter Roth akademíunni og hlotið starfslaun listamanna. Þá má nefna að hún hlaut Eyrarrósin nú í ár.
Aðalheiður heldur tvö heimili, annað í Freyjulundi í Hörgársveit og hitt á Siglufirði en hún keypti Alþýðuhúsið þar í bæ árið 2011. „Ég er svolítið á flakki milli staða, enda tekur svo sem ekki langan tíma að aka þessa leið á milli,“ segir hún. Árið hefur verið viðburðarríkt líkt og ætla má þegar tveimur góðum tímamótum er fagnað og segir hún að viðtökur við þeim sýningum sem standa yfir á Akureyri hafi verið góðar. „Ég heyri ekki annað en fólk sé ánægt og hrifið af þeim verkum sem ég er að sýna um þessar mundir,“ segir hún.
Lengri leiðin á milli heimila
Aðalheiður hefur fagnað með sýningum þegar hún náði fertugs- og fimmtugsaldri, var með 40 sýninga röð sem sett var upp í 14 löndum þegar hún varð 40 ára og 50 sýninga röð í tilefni af 50 ára afmælinu. Nú tók hún sig til og hóaði saman fleiri listamönnum og fagnaði með hringferð um Ísland og bauð upp á 60 gjörninga. Leikar hófust við heimili hennar í Freyjulundi og lauk við Alþýðuhúsið á Siglufirði 6 dögum síðar. „Það má segja að ég hafi tekið lengri leiðina á milli heimila minna,“ segir hún. „Þetta var virkilega skemmtilegt ferð og eftirminnilega en ég neita því ekki að hún var krefjandi, hálfgert maraþon má segja. En allt gekk eins og í lygasögu nema hvað einn daginn sprakk dekk á rútu sem setti svolítið strik í reikninginn, það tafði dagskránna um tvo klukkutíma, en að öðru leyti stóðust allar tímasetningar,“ segir hún.
Tíu gjörningar á dag
Alls voru 10 gjöringar í boði á hverjum degi þessa 6 daga sem ferðin stóð yfir og voru þeir ýmist á listasöfnum/galleríum eða úti í náttúrinni. Með henni í för var fleira listafólk á tveimur litlum rúmum og í einkabílum auk þess sem heimafólk á hverjum stað bættist í hópinn. „Það voru því töluvert margir sem tóku þátt í þessu með mér, það var mjög skemmtilegt. Þetta varð mér mikil innspýting, víkkar sjóndeildarhringinn og var í alla staði mikið og gott ævintýri.“
Til Danmerkur
Nú er Aðalheiður önnum kafin við að undirbúa sig fyrir ferð til Danmerkur en hún er á leið til Assedrup sem er smábær skammt utan við Árósa. Þar tekur við listamannsdvöl í einn mánuð, frá lokum ágúst og út september en einnig eru þar fyrir fleiri listamenn sem í lok dvalar setja upp sýningu á verkum sínum.„Þetta verður tveggja daga listahátíð með þátttöku bæði okkar aðkomu listamannanna og heimamanna. Árinu lýkur svo að venju með því að ég sýni mín verk í eigin húsnæði, Kompunni á Siglufirði og Freyjulundi, það hefur verið fastur liður undan farin ár og er ómissandi hefð á aðventunni að setja þessa markaði upp í báðum húsum.“