Tíminn líður, trúðu mér 3

Dýrleif Skjóldal skrifar
Dýrleif Skjóldal skrifar

     Þegar rætt er um aðstöðu fyrir íþróttir kemur margt upp í hugann, allt eftir því við hvern er talað. Eitt er samt vitað og það er að bætt aðstaða skilar sér alltaf. Skilar sér í fjölda iðkenda, betri starfsaðstöðu, bættum árangri, betri aðbúnaði. Skýrt dæmi um þetta er t.d að finna hjá Skautafélaginu. En það kostar líka. Við kjósum okkur fulltrúa til að stýra bænum okkar og fara með sameiginlegan fjárhag okkar. Að sjálfsögðu vilja allir gera sitt besta og því hefur verið farin sú leið 3 sinnum svo ég muni eftir að gerður hefur verið framkvæmdalisti nýframkvæmda á íþróttasviðinu.

Á þeim fyrsta var yfirbyggð sundaðstaða í 3. sæti á eftir fimleikahúsi og aðstöðu fyrir Siglingaklúbbinn. Á þeim næsta vorum við í 4. eða 5. sæti. Á þeim síðasta vorum við komin í 7. Sæti og þá átti að byggja yfirbyggða 50 metra laug sem lægi út í Andapollinn. Í vonsku minni yfir þessu skilaði ég Ingibjörgu Isaksen fyrrverandi bæjarfulltrúa, heiðursviðurkenningu minni fyrir störf í þágu íþróttamála og bað hana jafnframt um að sjá til þess að ég yrði strokuð út af þessum lista. Sveitarfélagið Akureyri fengi ekki leyfi til þess að skreyta sig með mínu nafni.

Varðandi það að 50 metra laug ætti að liggja út í Andapollinn vissi ég að það yrði aldrei. Til þess voru margar ástæður. Í 1. lagi hefur Andapollurinn og sundlaugarhúsið verið andlit Akureyrar og á póstkortum bæjarins síðan á 6. áratug síðustu aldar. Í 2. lagi er frá Þingvallastrætinu við Andapollinn hægt að sjá 5 byggingar fyrrum húsameistara ríkisins Guðjóns Samúelssonar frá einum og sama blettinum og í 3. lagi er ekkert pláss fyrir bílastæði þarna. Þegar haldin eru 3-500 manna sundmót þá þarf að reikna með því að þeim fylgi áhorfendur eins og á öðrum íþróttaviðburðum.

Enda kom það fljótt á daginn og til að snúa sig út úr þessu á nú að endurgera gömlu innilaugina, gera hana bjarta og fallega. Sú framkvæmd mun hins vegar ekki bæta við neinu til það sundlaugapláss sem fyrir er. Og það er það sem VANTAR!

Allir þessir 3 listar hafa allir hlotið svipuð örlög, þeim hefur ekki verið fylgt að öðru leyti en því að einhvern veginn er eins og stóru félögin gangi alltaf fyrir, þeirra þarfir eru alltaf meiri og liggur meira á. Með þeirri undantekningu að það er loks búið að byggja aðstöðu fyrir Siglingaklúbbinn. Og já vissulega hafa miklir peningar farið í sundlaugasvæði Sundlaugar Akureyrar, en minnst af þeim hefur farið í að bæta aðstöðu Sundfélagsins Óðins.

 En bærinn stækkar og stækkar. Hann hefur undanfarið teygt sig til suðurs, fyrst með Naustahverfi og nú með Hagahverfi. Naustaskóli er 450 barna skóli og sennilega á eftir að rísa Hagaskóli álíka stór. Þá erum við að tala um 900 börn sem á að kenna sund einu sinni í viku samkvæmt lögum. Ætlum við að halda áfram að troða þeim í yfirfullar laugar og keyra þau þangað með tilheyrandi mengun og óhagræði?

Stjórnendur Akureyrar verða að hugsa fram á við!  Milli þessara hverfa verður að koma sundlaug og sú laug verður að vera yfirbyggð lögleg keppnislaug, ekki enn ein 25m eða 16,7m heldur 50m. laug. Slíkri laug má skipta með skilrúmi, eins og gert var í gamla daga, það getur hangið í loftinu eins og tjald. Það hef ég séð í Gautaborg og þar sem við höfum 25m. laug er hægt að keppa þar þegar keppt er í 25m. laug og í hinni þegar keppt er í 50 metra lauginni. Með skilrúmi er hægt að kenna 4 bekkjum í einu. Með slíkri aðgerð mundi sannarlega rýmkast um skólasund, Sundfélagið og ekki síst almenningur sem fengi þá meira pláss í Akureyrarlaug.

Það styttist í 65 ára afmæli félagsins og brátt verður það löggilt gamalmenni og það styttist í dauða minn! En þangað til mun ég halda áfram að berjast fyrir bættri aðstöðu fyrir félagið mitt, Sundfélagið ÓÐINN.

Virðingarfyllst,

Dilla

Nýjast