Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin

Út er komin bókin Til taks Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin
Út er komin bókin Til taks Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin.  Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina.

Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.    

Hér á eftir fer lítilsháttar efni úr bókinni:

Baldvin Þorsteinsson strandar

Eftir að togarinn Baldvin Þorsteinsson EA strandaði á Skarðsfjöru að morgni þriðjudagsins 9. mars 2004, hófst viðamikil og flókin björgunaraðgerð með aðkomu margra aðila. Sextán manna áhöfn hins tæplega 3.000 brúttótonna skips var bjargað örugglega um borð í TF-LIF eftir strandið. Fenginn var öflugur, norskur dráttarbátur til að freista þess að bjarga togaranum.

Það var erfiðleikum háð að koma dráttartaug á milli skipanna en tveir kílómetrar skildu þau að. Þyrlur fluttu nú dráttartaug yfir í dráttarbátinn og brugðið var á það ráð að láta TF-SIF síðan draga svonefndan tildráttarvír úr dráttarbátnum í land. Þangað var hinn eiginlegi dráttarvír togaður inn, þaðan sem honum var komið yfir í togarann.

Fljúga þurfti þyrlunni aftur á bak með vírinn og tók það um 40 mínútur. Aðgerðin var nokkuð flókin, útheimti mikla einbeitingu áhafnar og hafði ekki verið reynd áður við björgun hérlendis. Ekki tókst betur til en svo að taugin slitnaði milli skipanna svo að aftur þurfti að tengja vír á milli þeirra en að þessu sinni var bakkað með vír á TF-SIF úr landi og yfir í dráttarbátinn.

Allt fór á endanum vel og tókst með dyggri samvinnu fjölda björgunaraðila að bjarga skipinu af strandstað.

Höfundar bókari frá vinstri: Benóný, Júlíus og Páll

Þetta segir í tilkynningu frá útgefanda

Nýjast