Tæplega 1,4 milljarður í framkvæmdir við Glerárskólareit

Viðmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á svæðinu við Glerárskóla og verða þær dýrustu á kjörtímabili…
Viðmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á svæðinu við Glerárskóla og verða þær dýrustu á kjörtímabilinu.

Framkvæmdir á Glerárskólareitnum á Akureyri verða dýrustu og viðamestu framkvæmdirnar á vegum Akureyrarbæjar á kjörtímabilinu. Áætlað er að framkvæmdir á endurbótum við Glerárskóla, nýjan leikskóla og endurbótum á íþróttahúsinu við Glerárskóla verði tæplega 1,4 milljarður. Stærsti hlutinn af fjármagninu fer í uppbyggingu á nýjum leikskóla eða um 950 milljónir, en ráðgert er að hann verði tekinn í notkun haustið 2021.

Leikskólinn mun rúma 140-145 börn á sjö deildum, þar af tvær fyrir ung börn á aldrinum 12-18 mánaða. Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs, segir í samtali við Vikudag að unnið sé í því að koma dagvistunarmálum bæjarins í betra horf með fjölbreyttum leiðum, m.a. með því að styrkja dagforeldrakerfið enn frekar.

„Í ár fengu öll börn sem orðin voru 17 mánaða 1. ágúst inni í leikskólum bæjarins en á næsta ári er stefnt að því að taka mánuði yngri börn inn. Þegar nýr leikskóli við Glerárskóla verður tekinn í notkun fjölgar heildarrýmum í bænum um 90. Þá verður möguleiki að taka við enn yngri börnum,“ segir Ingibjörg. Hún segir að áhersla sé lögð á að skoða fleiri lausnir til að mæta barnafjölskyldum í bænum þar sem engin ein lausn hentar öllum. Meðal annars sé verið að skoða færanleg kennslurými sem Ingibjörg segir að hafi gefið góða raun víða um land. Þessu til viðbótar sé gert ráð fyrir jöfnunargreiðslum til foreldra barna á ákveðnu aldursbili sem hugsaðar eru til jöfnunar á
greiðslum vegna dagvistunar.

„Ljóst er að ofangreindar aðgerðir munu koma til framkvæmda í þrepum en full samstaða er um að tryggja að börn frá 12 mánaða aldri komist annað hvort inn á leikskóla eða geti notið annarra úrræða á vegum bæjarins í lok kjörtímabilsins,“ segir Ingibjörg.

Fyrsta fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar á þessu kjörtímabili var samþykkt í bæjarstjórn á þriðudaginn var. Í grein sem bæjarfulltrúar frá meirihlutanum skrifa í Vikudag segir að forgangsverkefni á árinu 2019 og á kjörtímabilinu verði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum leiðum.

Nýjast