Tæplega 1000 skólabörn sáu drauginn Reyra
Draugurinn Reyri stóð heldur betur í ströngu í Hofi í vikunni. Á sunnudaginn mættu 215 manns á fjölskyldutónleikana Sögur af draugnum Reyra þar sem Reyri fór með gesti á vit löngu látinna tónskálda ásamt hrekkjóttu norninni Kíriki, Næturdrottningunni, Blásarakvintettnum Norð-Austan, píanóleikara, Barnakór Akureyrarkirkju og dönsurum úr Dansskóla Alice.
Í dag og í gær hafa tæplega 1000 börn úr 15 grunnskólum á Norðurlandi eystra komið í hús til að berja drauginn augum og hlusta á draugalega tónlist. Draugaleg hljóð hafa því umlukið húsið síðustu þrjá dag við mikla kátínu barnanna. Þetta kemur fram á vefsíðu Menningarfélags Akureyrar, Mak.
Viðburðurinn var samstarfsverkefni Tónlistarfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Töfrahurðar, List fyrir alla, Sóknaráætlun Norðurlands Eystra, Barnamenningarsjóðs, Tónlistarsjóðs, Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs.