Stefna réð fimm tölvunarfræðinga til starfa eftir útskrift úr HA
Stefna hugbúnaðarhús á Akureyri er ört vaxandi fyrirtæki en í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að á síðasta ári hafi það ráðið fimm forritara til starfa, strax eftir að þeir luku námi í tölvunarfræðum við hugbúnaðardeild Háskólans á Akureyri. „Fimm störf á stað eins og Akureyri er mikið; það skiptir svæðið fjárhagslegu máli á margvíslegan hátt þegar vel menntað fólk hefur hér störf. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að Háskólinn á Akureyri bjóði upp á tölvunarfræðinám,“ segir Matthías Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Stefnu.
Sé miðað við við íbúafjölda á Akureyri og nágrenni samsvarar ráðning Stefnu á fimm sérfræðingum því að fyrirtæki á stór-höfuðborgarsvæðinu réði liðlega 50 manns.
Starfsmenn Stefnu voru tveir í upphafi en eru nú um 30 – þar af tveir í Svíþjóð, fyrirtækið er með rúmlega 1000 vefi í loftinu, þjónustar liðlega helming sveitarfélaga landsins og alls vel á annað hundrað opinberra stofnana, auk fjölda stórra einkafyrirtækja. Störf án staðsetningar eru stjórnendum Stefnu á Akureyri ofarlega í huga, svo og möguleiki á námi í heimabyggð. Stefna hefur vaxið og dafnað síðustu ár og er stærsta hugbúnarfyrirtæki á landsbyggðinni. Haldið er upp á það um þessar mundir að fimmtán ár eru liðin frá stofnun fyrirtækisins.
Gott samstarf við Háskólinn í Reykjavík
Tölvunarfræðinám var í boði við Háskólann á Akureyri á fyrsta áratug aldarinnar en lagðist af. Þráðurinn var svo tekinn upp fyrir nokkrum árum, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, og gengur það afar vel, að sögn Ólafs Jónssonar, verkefnastjóra tölvunarfræðináms við HA.
„Þó svo að námið sé frá HR má alveg kalla það sveigjanlegt nám því fyrirlestrar eru teknir upp og verkefni koma inn á skólavefinn. Nemendur geta því horft á upptöku ef þeir hafa ekki tök á hlusta á fyrirlestur í beinni útsendingu. Að því leyti má segja að þeir séu fjarnemar, en svo mæta þeir í dæmatíma hingað í HA hjá kennara, líkt og í hefðbundnum dagskóla,“ segir Ólafur.
Hann segir góða aðsókn í tölvunarfræðinámið þó vissulega væri hægt að taka við fleiri nemendum. Hlutfallslega séu nemendur þó álíka margir hér miðað við þá sem stunda námið á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta gengur mjög vel, samstarfið við HR er frábært og hér í HA er mikill vilji til að halda góðu samstarfi áfram.“
Miklu þægilegra að vera hér í mínu umhverfi
Starfsmennirnir fimm sem Matthías nefndi eru sammála honum um mikilvægi þess að boðið sé upp á nám í tölvunarfræðum á Akureyri. Garðar Már Jónsson er einn þeirra sem ráðinn var til starfa hjá Stefnu á síðasta ári, strax eftir nám. „Mér fannst mjög mikilvægt að geta lært í heimabyggð, bæði hefur maður stuðning frá foreldrum og mér finnst líka skipta máli fyrir mig sem íþróttamann að þurfa ekki að yfirgefa félagið sem ég hef spilað með. Margir þurfa suður í nám þannig að íþróttafélögin missa frá sér menn og ég fór einmitt suður um tíma; var þar fyrsta árið eftir menntaskólann, spilaði handbolta með ÍR og ætlaði svo í tölvunarfræði eftir árs frí frá skóla, en þegar námið var endurvakið hér ákvað ég að koma heim. Mér finnst miklu þægilegra að vera hér í mínu umhverfi.“
Sjö mínútur að ganga í skólann
Ármann Pétur Ævarsson hafði lært íþrótta-og heilsufræði, þjálfaði eftir það börn í íþróttum og starfaði við kennslu einn vetur. „Ég fann að kennslan var ekki það sem ég vildi vinna við alla ævi og stökk því á tölvunarfræðinámið þegar ég sá það auglýst. Námið hafði verið endurvakið ári fyrr, ég talaði við verkefnastjórann í Háskólanum á Akureyri og komst að því að samstarfið við Háskólann í Reykjavík gengi mjög vel, ég þyrfti ekki að fara suður eða sækja neitt út fyrir háskólann hér. Þetta hentar mjög vel þegar maður er kominn með fjölskyldu og fasta búsetu.“
Ármann Pétur segir það hafa verið heillandi möguleika að geta lært í heimabyggð. „Ég var sjö mínútur að ganga í skólann en þurfti ekki að keyra í hálftíma eða 40 mínútur, eins og margir nemendur fyrir sunnan. Við þurftum ekkert að sækja til Reykjavíkur, fengum sama utanumhald og nemendur þar. Ég er sannfærður um að það er mjög gott fyrir Norðurland að nám sem þetta sé í boði hér; öll sterk menntun er jákvæð fyrir viðkomandi svæði. Það eru ótrúleg forréttindi að geta lært í heimabyggð og frábært tækifæri að fá strax vinnu hjá svo öflugu og góðu fyrirtæki,“ segir Ármann Pétur Ævarsson.