13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Stefna á opnun Hlíðarfjalls um miðjan desember
Starfsfólk Hlíðarfjalls er byrjað að undirbúa opnun skíðasvæðisins og stefnt er að því að opna 17. desember. Snjóbyssurnar til snjóframleiðslu eru klárar um leið og aðstæður leyfa. Á vef Akureyrarbæjar segir að óvissa ríki um hvernig ástandið verður vegna Covid-19 faraldursins þegar hægt verður að opna svæðið, en Samtök skíðasvæða á Íslandi hafi óskað eftir upplýsingum um tilhögun á starfsemi skíðasvæða næstu mánuði. Vonast er til þess að þau mál skýrist á næstu vikum.
Ný stólalyfta líklega ekki tilbúinn fyrr en eftir áramót
Þá segir að á vef bæjarins að vinna við nýju stólalyftuna sé nú á síðustu metrunum og aðeins eigi eftir að gera ákveðnar öryggisprófanir á öllum búnaði í samráði við framleiðanda. Fram kemur í fundargerð stjórnar Hlíðarfjalls að ljóst sé að afhendingartími á nýju lyftunni verði ekki fyrr en að lokinni öryggisúttekt sem erlendir sérfræðingar þurfa að framkvæma. Miðað við stöðuna vegna kórónuveirunnar verður afhending líklegast ekki fyrr en í byrjun árs 2021.