Óvíst um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar
Óvíst er hvort farið verði í uppbyggingu á samgöngumiðstöð á Akureyri. Samgöngumiðstöð hefur verið í umræðunni undanfarin ár en t.a.m. þá voru margir flokkar með samgöngumiðstöð á dagskrá fyrir þarsíðustu sveitarstjórnarkosningar.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir verkefnið vera í biðstöðu. „Varðandi almenningssamgöngur þá var gerður samningur við Landshlutasamtök sveitarfélaga sem gildir út árið 2019 og svo ætlaði ríkið að koma með nýtt útspil varðandi almenningssamgöngur. Eitt af því sem við höfum verið að fylgjast með er hvort ríkið ætli sér að koma að uppbyggingu samgöngumiðstöðvar,“ segir Guðmundur Baldvin, en óvissa hefur verið um áframhaldandi rekstur á landshlutastrætóinum.
Verði hann áfram hefur ríkið viðrað þær hugmyndir að byggjað miðstöð. Eitt af því sem samgöngumiðstöð á að gera er að leysa af stoppistöðina við Hof þar sem landsbyggðarstrætóinn stoppar. Þar þykir aðstaðan afar glæfraleg og beinlínis hættuleg.
„Á næsta ári ætlum við hins vegar að fara í að gera bragabætur á aðstöðunni við Hof þar sem landshlutastrætóinn stoppar og eins í miðbænum. Við ætlum líka að bíða og sjá hvernig uppbyggingin verður í miðbænum. Þetta er því í ákveðinni biðstöðu og það er ekkert fast í hendi,“ segir Guðmundur Baldvin.