Nýr samingur ríkisins við Aflið

Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnisstjóri Aflsins, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráð…
Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnisstjóri Aflsins, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirrituðu samninginn um helgina.

Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, fær 18 milljóna króna framlag til að standa straum af starfsemi sinni, samkvæmt samningi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigurbjörg Harðardóttir, verkefnisstjóri Aflsins, undirrituðu um síðustu helgi.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að samningurinn byggi á samþykkt fjárlaganefndar Alþingis og gildir til 31. desember 2020. Meginmarkmið samningsins er að styrkja Aflið til að standa straum af kostnaði starfseminnar, en hún felst meðal annars í ráðgjöf og stuðningi við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis, forvarnarfræðslu, faglegri ráðgjöf, handleiðslu ráðgjafa og þróunarstarfi.

Aflið var stofnað árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta og Jafnréttisstofu. Undanfarin ár hafa samtökin verið með þjónustusamning við Akureyrarbæ og átt í samvinnu við bæjaryfirvöld sem á móti hafa veitt félaginu afnot af húsnæði í Aðalstræti 14.

„Mikill fjöldi fólks sækist eftir þjónustu Aflsins á ári hverju. Það er sorgleg staðreynd en jafn mikilvægt að tryggja að þolendur geti sótt stuðning og ráðgjöf við hæfi. Sömuleiðis að þeir þurfi ekki að fara um langan veg til að fá þjónustu. Samningurinn tryggir það," sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

 

Nýjast