Nýr forstöðumaður ráðinn til Húsavíkurstofu

Björgvin Ingi Pétursson forstöðumaður Húsavíkurstofu. Mynd/aðsend
Björgvin Ingi Pétursson forstöðumaður Húsavíkurstofu. Mynd/aðsend

Stjórn Húsavíkurstofu hefur undirritað ráðningarsamning við nýjan forstöðumann, hann Björgvin Inga Pétursson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsavíkurstofu.

Björgvin starfaði hjá Geosea, sá þar um samfélagsmiðla ásamt ýmsu öðru og kemur til Húsavíkurstofu frá Gamla Bauk þar sem hann hefur í sumar starfað sem veitingastjóri. Hans bakgrunnur er fjölbreyttur og var hann verslunarstjóri í einni fiskverslun Hafsins og vann hjá Hafinu í sex ár. Þar sá hann um allt sem sneri að rekstri búðarinnar, markaðssetningu og gekk það vel.

Hann er með master í markaðfræðum ofan á viðskiptafræði í grunninn. Björgvin á líka fortíð í tónlistarheiminum og var meðlimur í hljómsveitinni Jakobínurínu. Með þeim túraði hann víðsvegar um Evrópu eftir að hafa unnið Músíktilraunir.

Í náminu tók hann skiptinám erlendis í nokkra mánuði og sá þá t.d. um samfélagsmiðla fyrir fyrirtæki á borð við Lindex og Victorias secret.

Skrifstofa nýs forstöðumanns er á 2. hæð að Garðarsbraut 5. 

Langtímasamband Húsavíkurstofu og Norðurþings í höfn

Húsavíkurstofa

Síðastliðin tvö og hálft ár hefur Húsavíkurstofa verið með starfandi forstöðumann. Í þann tíma hefur stofan fengið styrki frá Norðurþingi, en alltaf eitt ár í senn. Í tilkynningunni kemur fram að í  sumar í sumar hafi náðst sá ánægjulegi árangur að Norðurþing og Húsavíkurstofa gerðu með sér samning til þriggja ára. "Það gefur Húsavíkurstofu tækifæri á því að setja starfið í betri farveg ásamt því að gera langtímaáætlanir og setja á koppinn verkefni til lengri tíma. Ný stjórn Húsavíkurstofu frá því í vor hefur verið að undirbúa og marka framhald stofunnar til lengri tíma, mörg verkefni hafa verið í umræðunni, meðal annars; markaðsetning Húsavíkur utan háannatíma, eftirfylgni verkefna tengdum Eurovision kvikmyndinni, hvernig nýta á betur göngu- og hjólastíga bæjarins, ásamt fleirum," segir í tilkynningunni.

Á myndinni má sjá Kristján Þór, sveitarstjóra Norðurþings og Evu Björk Káradóttur, formann stjórnar Húsavíkurstofu með undirritaðan samning í höndunum.

Nýjast