Ný tillaga að fjölbýlishúsi við Norðurtorg
Lögð hefur verið fram ný tillaga að fjölbýlishúsi við Norðurtorg, uppfærð í takt við athugasemdir frá bæjaryfirvöldum. Samkvæmt nýrri hugmynd er byggingin staðsett fjærst núverandi íbúðabyggð, handan Austursíðu og er húsinu skipt í tvo arma sem saman mynda skjólgóðan og gróðursælan garð til suður og vesturs að Austursíðu og byggðinni í Síðuhverfi.
Skipulagsráð hefur tekið jákvætt í erindi og falið skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem felur í sér breytta landnotkun í verslun og þjónustu með heimild fyrir íbúðir.
Fram kemur í erindinu sem Úti og inni arkitektar og Norðurtorg ehf senda inn að miðhluti hússins verði fimm hæðir en þrjár til fjórar hæðir út til hliðanna. Bílakjallari verður undir húsinu og á jarðhæð sem fellur inn í landi gæti mögulega verið verslun eða þjónustu af einhverju tagi.
Fjölbýlishús á umferðareyju
Sindri Kristjánsson fulltrúi Samfylkingar í Skipulagsráði hefur áður lýst efasemdum vegna tillögurnnar en segir að með nýrri tillögu sé reyn að eyða eða draga verulega úr efasemdum. „Umhverfi tillögunnar er að einhverju leyti manneskjuvænni og vistlegri frá því sem áður var þó svo að enn hafi tillagan á sér það yfirbragð að mínu mati að reisa eigi fjölbýlishús á umferðareyju,“ segir í bókun Sindra. Aðrar efasemdir um tillöguna standi enn eftir að mestu. „Til að bregðast við skorti á íbúðamarki í bænum með auknu lóðaframboði eru fjölmörg önnur tækifæri, aðrar staðsetningar sem henta mun betur til íbúðauppbyggingar“segir einnig í bókun Sindra.