Norðurhjálp opnar við Óseyri á morgun

„Við erum mjög spenntar og hlökkum mikið til að opna dyrnar fyrir gestum og gangandi,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir ein þeirra sem standa að nytjamarkaði Norðurhjálpar. Markaðurinn verður opnaður á morgun á nýjum stað, Óseyri 18 og segir hún að starfsemi markaðarins rúmist þar ágætlega þó húsnæðið sé aðeins minna en áður var til umráða. Norðurhjálp opnar á morgun, föstudaginn 21. mars kl. 13.
„Það höfum lagt gríðarlega mikla vinnu í að koma öllu í stand hér þannig að hægt sé að opna og einnig talsverðan kostnað. En vonum að það skili sér í góðu andrúmslofti á markaðnum og að fólki þyki áfram gott að koma til okkar,“ segir Sæunn.
Hnífur í bakið
Leigusamningi á fyrri stað var fyrirvaralaus sagt upp skömmu eftir áramót og Norðurhjálp gert að yfirgefa húsnæðið í lok febrúar síðastliðinn. „Það má alveg orða það svo að þetta kom okkur í opna skjöldu, maður á því ekki að venjast að hníf sé stungið í bakið á góðgerðarsamtökum, en svona getur lífið verið,“ segir hún. Húsnæðið við Dalsbraut var í notkun í rúmt hálft ár, frá sumarbyrjun í fyrra þar til í lok febrúar. „Við höfðum lagt mikla vinnu í að græja húsnæði við Dalsbraut með aðstoð fjölmargra sjálfboðaliða, unnið í rafmagni, málað og gert staðinn upp í raun, en því miður þá endaði þetta með því að við vorum hraktar á brott.“
Nýja húsnæðið er að Óseyri 18
Höldum ótrauðar áfram
Sæunn segir að þær stöllur sem standa að markaðnum nú séu alls ekki að baki dottnar þrátt fyrir áföll, miklar vinnu og fjárútlát. „Við höldum ótrauðar áfram. Við finnum fyrir miklu þakklæti frá samfélaginu, velvilja hvarvetna og allir eru boðnir og búnir að leggja okkur lið. Við höfum lagt mikið til samfélagsins sem ekki veitir af nú þegar alltof margir eru að glíma við fjárhagserfiðleika og fátækt,“ segir Sæunn en gera má ráð fyrir að Norðurhjálp hafi veitt hátt í þrjá tugi milljóna út í samfélagið í formi inneignarkorta í lágvöruverslun, með því að deila út varningi af ýmsu tagi og matvælum.
Ómetanlegt að finna hlýhuginn
„Við teljum að það sé mikil þörf fyrir okkar framlag til samfélagsins og látum þessi leiðindi með húsnæðið ekki tefja fyrir okkur. Við fengum mikla hjálp við flutningana og við að koma húsnæðinu í stand. Þetta nýja húsnæði við Óseyri hentar vel, það er bjart og hlýtt og næg bílastæði fyrir utan. Okkur finnst fólk vera jákvætt, það hefur streymt til okkar varningur ogmargir hafa á orði að þeir bíði spenntir eftir að koma og líta á úrvalið. Það er mikill velvilji í gangi og það er okkur ómetanlegt að finna þennan hlýhug,“ segir Sæunn.
Hún segir að vegna hremminga við flutninga milli húsa sé staðan á reikingi Norðurhjálpar ekki beysin sem stendur og því verði fyrst um sinn ekki hægt að leggja inn á Bónuskort. „Við vonum að við réttum úr kútnum fljótt og vel þegar allt fer í gang og hægt verði að aðstoða þá sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi fyrr en varir.“
Fjöldi sjálfboðaliða á breiðu aldursbili leggur fram krafta sína í Norðurhjálp