Munnleg þjálfun í tungumálakennslu

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Miklu skiptir að fjölbreyttar kennsluaðferðir séu notaðar í tungumálanámi þegar færniþættirnir fjórir eru annars vegar. Munnleg þjálfun er einn þeirra þátta, kannski sá mikilvægasti. Tungumál er út um allt en lítið gerist nema maður hafi tungumál til að tjá sig á.

Til eru margar leiðir til að þjálfa talað mál. Mestu skiptir er að fá nemendur að tala og nota tungumálið sem kennt er. Það á ekki bara við í dönsku heldur líka í íslensku sem annað mál. Hæfni til að skilja og tjá sig bæði munnlega og skriflega er nauðsynleg til að læra nýja hluti í öllum námsgreinum.

Á fyrstu stigum

Í upphafi dönskukennslu, sem ætti að hefjast í 6. bekk, er mikilvægt að kynna hvað stafirnir segja, orð og fáeinar léttar málfræðireglur. Með kennslu málfræðireglna eru meiri líkur á að nemandi beiti tungumálinu rétt, s.s. sögnum og tíð.  Síðan er byggt ofan á þekkinguna á komandi árum. Rétt eins og þegar hús rísa skiptir grunnurinn miklu máli. Í skýrslu danska farkennarans, á Akureyri, fékk munnlegi þátturinn frekar lélega einkunn ef tala má um einkunn í því samhengi. Hvort faglegir leiðtogar hafi notað þetta innra mat til að bæta úr því sem betur má fara er höfundi ekki kunnugt um. En ljóst er, Það þarf að gera betur.

Tala í kennslustofunni

Til að baða nemendur upp úr dönsku þarf að tala hana í tímum. Kennarinn verður að hafa tungumálið á valdi sínu til að það gerist. Leyfa þarf nemendum að spreyta sig í kennslustund. Til að þjálfa munnlega þáttinn í tungumálanámi er mikilvægt að nemendafjöldinn sé ekki of mikill. Þetta vita faglegir leiðtogar grunnskólanna sem passa væntanlega upp á það. Heitir að skapa viðunandi eða góðar námsaðstæður.

Of margir nemendur hugsar einhver, hver er talan. Tungumálakennarar tala um 15- 20 nemendur í hóp í mesta lagi upp í 24. Þegar fjöldinn verður meiri er erfiðara að þjálfa munnlega færni af ýmsum ástæðum. Tungumálakennarar þekkja það.

Að nota orðin

Þegar nemendur læra ný orð er mikilvægt að þeir fái tækifæri til að nota þau og heyra orðin í margvíslegu samhengi, svo þau geti tengt orðin við það sem þau þekkja fyrir. Í þannig aðstæðum er mikilvægt að þekking dönskukennara sé góð á töluðu máli og að hann hafi blæbrigðaríkan skilning á orðunum. Fái nemendur ekki tækifæri til að nota orðin í töluðu máli er mikið af þeim tekið. Æfingin skapar meistarann.

Helga Dögg Sverrisdóttir, M.Sc. M.Ed. B.Ed. í tungumálakennslu.

Nýjast