Markmið að styðja við börn með fjölþættan vanda til íþróttaiðkunar

Halla Birgisdóttir forstöðumaður tómstundamála og Salka Sigurðardóttir verkefnastjóri félagslegrar l…
Halla Birgisdóttir forstöðumaður tómstundamála og Salka Sigurðardóttir verkefnastjóri félagslegrar liðveislu hafa unnið að útfærslu á verkefninu Íþróttafélaganum sem snýst um stuðning við íþróttaiðkun barna með fjölþættan vanda. Mynd/MÞÞ
mth@vikubladid.is

Tilraunaverkefnið Íþróttafélaginn hefst á Akureyri næsta haust -  Fjögur íþróttafélög taka þátt - Styrkur upp á 2,2 milljónir til fjögurra mánaða


Íþróttafélaginn er heiti á tilraunaverkefni sem stefnt er á að hefja strax næsta haust. Fræðslu og lýðheilsuráð hefur veitt 2,2 milljón króna styrk til verkefnisins til fjögurra mánaða og nær styrkurinn til fjögurra íþróttafélaga, KA, Þórs, Ungmennafélags Akureyrar og Fimleikafélags Akureyrar. Undirbúningur stendur nú yfir og á allt að vera klárt þegar íþróttafélögin hefja vetrarstarf sitt. Halla Birgisdóttir forstöðumaður tómstundamála og Salka Sigurðardóttir verkefnastjóri félagslegrar liðveislu hafa unnið að útfærslu á verkefninu sem snýst um stuðning við íþróttaiðkun barna með fjölþættan vanda.

„Við stefnum á að hefja verkefnið strax næsta haust og það er ekkert því til fyrirstöðu að svo geti orðið,“ segja þær Halla og Salka sem hafa unnið að verkefninu. Markmið þess er styðja við börn sem eru í  1.- 4. bekk grunnskóla og eru með fjölþættan vanda til íþróttaiðkunar. Við sjáum það því miður of oft hjá okkur að eftir fjórða bekk virðist brottfall úr íþróttum aukast og enda þau börn hjá okkur í félagslegu liðveislunni, orðin félagslega einangruð og þurfa mikið inngrip og aðhald til þess að virkja þau á ný,“ segja þær Halla og Salka.

Veita iðkendum með fjölþættan vanda þann stuðning sem þarfÁvinningur

Markmið Íþróttafélagans sé því  að koma til móts við fyrirliggjandi vanda með snemmtækri íhlutun sem fellur undir samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna. „Þetta snýst um að styrkja grunnstoðina, halda iðkendum í virkni og veita þeim iðkendum sem greindir hafa verið með fjölþættan vanda og eru á fyrstu árum grunnskólans þann stuðning sem þarf til að reyna eftir megni að forðast frekara brottfall úr íþróttum.“

Þær segja að íþróttafélögin kortleggi sjálf hvar þörfin er mest bæði á milli flokka og greina. Starfsmaður á vegum íþróttafélaganna fari inn á æfingar og fylgi þeim börnum sem þurfa á frekari stuðningi að halda. Gera megi ráð fyrir margvíslegum jákvæðum ávinningi í kjölfar þessa verkefnis, sem dæmi að börn haldist í virkni og þau haldi áfram að stunda íþróttir. „Við vonum að þetta leiði einnig til þess að börnin uppgötvi nýja styrkleika hjá sér og að þau öðlist sjálfstæði í félagslegum aðstæðum. Eins er markmið að þau styrki sýna sjálfsmynd og félagsleg samskipti með þátttöku í Íþróttafélaganum og síðast en ekki síst væntum við þess að þetta verkefni komi í veg fyrir frekari inngrip síðar hjá þessum hópi barna og félagslegri einangrun þeirra,“ segja Halla og Salka.

Leita að starfsfólki

„Við erum spenntar fyrir komandi tímum og bjartsýnar á að þetta verkefni veiti öðrum sveitarfélögum innblástur til að feta í svipuð spor, slást með í för og styðja við íþróttaiðkun barna með fjölþættan vanda,“ segja þær og bæta við að næsta skref sé að finna og ráða flott starfsfólk sem vilji taka þátt í þessu skemmtilega verkefni með þeim.

 

Nýjast