Málfræði tungumáls

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Í öllum tungumálum eru reglur, málfræðireglur. Leikreglur tungumálsins leiða til skiljanlegrar tjáningar. Skilningur á töluðu máli þarf líka að vera til staðar. Það er ekki sama hvernig við tölum, hvorki í dönsku né íslensku. Til að tala rétt þurfum við reglur.

Reglur eru notaðar til að kenna börnum og þeim sem vilja læra tungumál til að tala það rétt. Allir vilja hafa umferðarreglur eða reglur í boltaleikjum til að fara eftir, annars getur farið illa. Sama gildir um tungumálin. Tungumál má nota á marga vegu en það er hægt að misnota það til að beita valdi og stjórna fólki.

Málfræði í dönsku

Í tungumálanámi HÍ læra kennaraefnin málfræði í því tungumáli sem þau ákveða að sérhæfa sig í. Við dönskudeildina í HÍ, áður KHÍ, starfa Danir sem þekkja málfræði dönskunnar frá blautu barnsbeini rétt eins og íslenskir kennarar þekkja íslenska málfræði. Ofan á almenna þekkingu hafa kennarar í háskólanum sérhæfða þekkingu sem þeir miðla til nemenda.

Tungumálið gegnir lykilhlutverki í mannlegum samskiptum og samfélagi. Því skiptir öllu að málfræðin sé rétt kennd þannig að nemendur geti beitt tungumálinu rétt, íslensku, ensku eða dönsku. Þessi lærdómur fer að mestu fram í gegnum tungumálakennslu í grunnskólanum. Þegar nemi kemur á framhaldsskólastig bætir hann við sig tungumálum, oftast spænsku, frönsku eða þýsku. Í þeim tungumálum eru líka málfræðireglur.

Ef tungumál er brenglað eða misnotað getur farið illa segir Josef Pieper. Stundum er tungumálið notað til að afvegaleiða eða blekkja, slíkt má sjá í stjórnmálum og áróðri. Með því að hagræða tungumálinu geta valdhafar skapað falskan veruleika og stjórnað almenningi segir Josef sem gaf út bókina Abuse of Language, Abuse of Power. Hann bendir líka á að misnotkun á tungumálinu grafi undan trausti og eyðileggur grundvöll að innihaldsríkum samræðum.

Málfræðin stuðlar að réttu talmáli

Til að tryggja skilvirk og viðeigandi samskipti þarf nemandi að læra um setningafræði (uppbyggingu setninga), formgerð (beygingu orða) og hvernig stærri máleiningar (bæði munnlegar og skriflegar) eru byggðar upp. Þessar aðstæður eru nátengdar því sem maður vill ná fram með tjáningu. Náin tengsl eru á milli textategunda og tungumálatækni. Til að komast í gegnum samskipti þarf að þekkja grunnreglurnar.

Málfræði er rannsókn á uppbyggingu tungumálsins: formfræðireglum, þ.e.a.s. hvernig hægt er að tengja saman orðhluta í orð, og setningafræði, hvernig hægt er að tengja orð saman í setningar. Það skiptir máli hvernig orðum er raðað saman í setningar sem eru ekki eins í öllum tungumálum. Málfræði er lýsing á tungumálaframleiðslu með reglustýrðri starfsemi. Þær reglur ber að virða sama hvert tungumálið er.

Vanda til verka

Öll orð sem til eru, á hvaða tungumáli sem er, er hægt að tengja saman á ólíkan hátt og samskipti væru ekki möguleg ef ekki væru ákveðnar reglur um hvernig hægt er að tengja þau saman. Málfræði er góður grunnur að réttri málnotkun. Engum, sem þekkir danska tungu, dytti í hug að segja eða skrifa á dönsku; ,,Jeg vider meget om Island.“ ,,Jeg købte en killing i butikker Netto.“  ,,Har du bestille tid hos leger i dag?“ Af hverju ekki, leystu gátuna lesandi góður.

Þegar vel er gert í málfræðikennslu tungumáls eru meiri líkur en minni að nemandi tali tungumálið rétt. Til að beita réttu kyni, sögnum, endingum og tölu þarf að læra grunn málfræðinnar og skiptir þá engu hvert tungumálið er. Þegar til þess er hugsað hve sértæk tungumálakennsla er þá eru sérmenntaðir tungumálakennarar verðmætur starfskraftur í hverjum skóla.

Til þess að nemendur átti sig á hlutverki tungumálakennslu í skólum þurfa þeir að vera virkir í námi sínu og fá hvatningu til að læra málið. Ekki síður þurfa þeir að hafa ánægju af því að fást við málið. Nemendur þurfa að átta sig á að tungumálakunnátta er lykill að fræðslu, námi og atvinnutækifærum í framtíðinni, ekki síst fyrir svo fámenna þjóð eins og Íslendinga.

Mjög fáar málfræðireglur hafa breyst í dönsku. Eitt er þó óbreytanlegt, líffræðilegt kyn og málfræðilegt kyn er ekki eitt og hið sama, hvorki í dönsku né íslensku.

Helga Dögg Sverrisdóttir, M.Sc. M.Ed. og B.Ed. með sérhæfingu í dönskukennslu.

 

 

 

 

 

Nýjast