MA í úrslit Gettu betur

Lið MA í kvöld. Frá vinstri: Kjartan Valur, Árni Stefán og Sólveig Erla. Ljósmynd: Unnar Vilhjálmsso…
Lið MA í kvöld. Frá vinstri: Kjartan Valur, Árni Stefán og Sólveig Erla. Ljósmynd: Unnar Vilhjálmsson.

Menntaskólinn á Akureyri mun keppa um hljóðnemann eftirsótta í spurningakeppni framhaldsskólanna árið 2025. MA hafði betur gegn Fjölbrautaskólanum við Ármúla í kvöld, lokatölur 28-16. Úrslitaviðureignin fer fram fimmtudaginn 27. mars og mun okkar fólk mæta annað hvort Menntaskólanum í Reykjavík eða Menntaskólanum við Hamrahlíð. Skólarnir tveir mætast í hinni undanúrslitaviðureigninni eftir viku.

MA fór vel af stað og leiddi að loknum hraða- og myndbandsspurningum. Munurinn jókst eftir bjölluspurningar, staðan 27-16. Við tóku vísbendingaspurningar og í ljósi stöðunnar þurfti FÁ að krækja sér í ákveðinn fjölda stiga til að eiga möguleika á sigri sem gekk ekki eftir. Raunar var stigasöfnun beggja liða hæg á lokasprettinum. Þar með var ljóst að MA færi með sigur af hólmi áður en kom að síðasta hluta keppninnar, þríþrautinni. Okkar fólk bætti stigi í sarpinn áður en yfir lauk. Lokaniðurstaðan 28-16 MA í vil.

Aldeilis frábær frammistaða hjá þeim Árna, Kjartani og Sólveigu sem hafa sýnt mikinn stíganda í keppninni. Metnaður þeirra og þrautseigja hefur nú skilað MA alla leið í úrslit keppninnar í fyrsta skipti síðan 2008. Gera má ráð fyrir fjölmennum hópi stuðningsfólks suður yfir heiðar eftir tvær vikur.

Það var ma.is sem sagði frá

 

Nýjast