Lagfæra leiðina uppá Súlur

Gönguleið upp á Súlur er vinsæl afþreying meðal heimamanna sem og ferðalanga. Mynd/Ármann Hinrik.
Gönguleið upp á Súlur er vinsæl afþreying meðal heimamanna sem og ferðalanga. Mynd/Ármann Hinrik.

Stjórn Akureyrarstofu hefur samþykkt styrk til Ferðafélags Akureyrar að upphæð kr. 200.000 til að lagfæra göngustíg upp á Súlur. Stefnir Ferðafélag Akureyrar að því að setja þrjár nýjar mýrarbrýr á Súlugötuna sumarið 2020. Í

bréfi Ferðafélags Akureyrar til bæjaryfirvalda segir að Súlugatan liggi víða um votlendi á leið upp í Súlurnar. Þar myndast sums staðar ljót spor þegar gatan veðst upp, einkum í rigningartíð á sumrin. Ferðafélagið hefur frá og með 2015 sett mýrarbrýr á nokkra verstu bleytukaflana.

„Viðurkennd afþreying“

Í bréfinu kemur fram að settur hafi verið upp umferðarteljari við upphaf Súlugötunnar sumarið 2018 og frá 1. janúar til 3. október 2019 hafi alls 4.035 manns farið framhjá teljaranum. Umferðin er langmest yfir sumarmánuðina júní til september. Þannig hafi 181 farið á einum sama deginum í ágústmánuði.

Í vörðunni á Ytri-Súlu er gestabók en frá 14. júlí 2018 til 20. júlí 2019 skrifuðu alls 1.446 manns nöfn sín í gestabókina, þar af 45% útlendingar. „Það er því orðin viðurkennd afþreying á Akureyrarsvæðinu að ganga upp á Súlur,“ segir í bréfi Ferðafélags Akureyrar.

Nýjast