20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Krefjast 10 daga greiðslufrest um göngin
Neytendasamtökin krefjast þess að Vaðlaheiðargöng rýmki tímann fyrir ökumenn í að greiða gjaldið í göngin. Gjaldið hækkar um 67% ef ekki er greitt innan þriggja klukkustunda frá því að ekið er um göngin, eða úr 1.500 krónum í 2.500.
Á vef Neytendasamtakanna segir að gjaldtaka af þessu tagi, þar sem ekið er í gegnum göngin án sérstaks innheimtuhliðs, sé nýnæmi og ökumenn óvanir henni. Tíminn sem gefinn er til greiðslu er það naumur að sé ekið í gegnum göngin er aukagjaldið fallið á áður en komið er til Egilstaða, nú eða Reykjavíkur sé ekið í hina áttina.
„Neytendasamtökin telja umrædda skilmála ósanngjarna og andstæða góðum viðskiptavenjum. Samtökin hafa þegar sent forsvarsmönnum Vaðlaheiðarganga erindi þar sem krafist er að tímarammi til greiðslu sé rýmkaður í 10 daga,“ segir á vef Neytendasamtakanna.