Kostnaður við málaflokk leikskóla hefur hækkað um 917 milljónir á fimm árum
mth@vikubladid.is
Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi segir nauðsynlegt að staldra við og greina kostnaðaraukann
„Hef áhyggjur af þeim háu fjármunum sem hafa farið í viðauka við málaflokk leikskóla á árinu,“ segir Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Framsóknarflokks en hún lagði til á fundi bæjarráðs, „og ekki í fyrsta sinn,“ eins og hún orðar það, að stofnaður verði þverpólitískur starfshópur ásamt starfsfólki og hagaðilum til að fara í greiningu og endurskipulagningu á leikskólastiginu. Meirihluti bæjarráðs hafnaði erindinu.
Sunna Hlín bendir á að málaflokkur leikskóla hefur hækkað um 917 milljónir króna á fimm árum, um 43%.„Það eru ýmsar ástæður fyrir því sem erfitt er að hafa stjórn en ég tel nauðsynlegt að staldra við núna og greina þennan kostnaðarauka og í framhaldinu setja upp heildaráætlun til framtíðar fyrir skipulag leikskóla án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar eða velferð starfsfólks,“ segir í bókun sem hún lagði fram á fundi bæjarráðs.
Nauðsynlegt að bregðast við
Hún segir kostnaðaraukann vegna málaflokks leikskóla til kominn vegna margra þátta, lengi undirbúningstíma, betri vinnutíma, börn eru tekin inn 12 mánaðar og það er aukinn stuðningur við börn, þá er einnig meiri afleysing vegna veikinda svo nokkur dæmi séu nefnd. „Við viljum veita framúrskarandi þjónustu og betrumbæta starfsaðstæður starfsmanna á leikskóla og það kostar,“ segir Sunna Hlín. „Því skal þó haldið til haga að tekjur hafa einnig hækkað nokkuð á þessu tímabili en með þessu áframhaldi munum við seint ná sjálfbærni í rekstri aðalsjóðs og því nauðsynlegt að bregðast við á einhvern hátt.“
Sunna Hlín segir ljóst að það muni kosta sveitarfélögin mikla fjármuni að taka inn 12 mánaða börn og því sé mikilvægt að stjórnvöld skoði vel hvort borgi sig að hækka fæðingarorlofið upp í 18 mánuði og þá um leið gefa börnum tækifæri til að vera lengur heima með foreldrum sínum. „Betri vinnutími eða stytting vinnuvikunnar átti ekki að kosta neitt en það hefur heldur betur annað komið í ljós. Vonandi verður þessi stytting samt til þess að álag minnki á starfsfólki og þar af leiðandi munu veikindadögum fækka.“
Ótrúleg vinnubrögð
Heimir Örn Árnason formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs upplýsti fyrr í vikunni um að stefnt væri að því að leikskólar Akureyrarbæjar yrði gjaldfrjálsir í 6 klukkustundir á dag frá og með næstu áramótum. Unnið hafi verið að tillögum þessa efnis í ráðinu undanfarna mánuði og það verði tekið fyrir á fundi í ágúst. „Þessar tillögur hafa aldrei verið teknar fyrir faglega í neinum ráðum eða farið í neina formlega heildarskoðun. Þetta eru að mínu mati ótrúleg vinnubrögð. Það verður fróðlegt að sjá hvaða gögn fylgja þegar málið ratar inn í fræðslu- og lýðheilsuráð, því hér þarf að vanda til verka. Breytingar af þessu tagi er best að vinna faglega og í þverpólitískri sátt, en það virðist ekki vera neinn vilji til samstarfs,“ segir Sunna Hlín.