Komu heim með bikar eftir frábæran árangur

Allir glaðir eftir verðlaunaafhendinguna. Myndir: Tónlistarskóli Akureyrar.
Allir glaðir eftir verðlaunaafhendinguna. Myndir: Tónlistarskóli Akureyrar.

Nemendur úr blásarasveitum Tónlistarskólans á Akureyri lögðu land undir fót í lok júní og ferðuðust til Svíþjóðar til að taka þátt í Göteborg Musik Festival. Mótið hefur verið haldið árlega frá árinu 1988 og samanstendur af keppnum, tónleikum, skrúðgöngum og námskeiðum. Metþátttaka var á mótinu í ár, en 30 hljómsveitir tóku þátt.

Sóley Björk Einarsdóttir kennari, hljómsveitarstjóri og fagstjóri í Tónlistarskólanum á Akureyri segir þrjár hljómsveitir starfandi í blásarasveitarstarfi Tónlistarskólans á Akureyri, A, B og C sveitir og er nemendum skipt í þær eftir aldri og lengd náms. „Við fórum út núna í fyrsta sinn með eina blandaða hljómsveit sem saman stóð af 34 nemendum á aldrinum frá 8 til 19 ára. Hljómsveitin tók m.a. þátt í aðalkeppninni og náði frábærum árangri, þriðja sæti og við komum heim með bikar sem allir eru afar ánægðir með,“ segir Sóley Björk hljómsveitarstjóri, en Emil Þorri Emilsson var aðstoðarhljómsveitarstjóri.

Allir lögðu metnað í verkefnið

Skrúðganga

Hún segir að þessi árangur sé sá besti fram til þessa, „og það er vegna þess að allir tóku verkefnið mjög alvarlega, unnu vel saman og lögðu mikinn metnað í verkefnið. Það var svo gaman að sjá hvað hópurinn náði vel saman og ný vinatengsl mynduðust í kjölfarið,“ segir Sóley Björk. Hún segir það hægara sagt en gert að blanda saman þremur sveitum og taka þátt í hljómsveitarkeppni þar sem til leiks mæta hljómsveitir sem æfa saman allt árið.

Á efnisskánni voru einkum og sér í lagi íslenskar perlur í bland við erlenda smelli og segir Sóley Björk það hafa verið skemmtilega áskorun að útsetja verk fyrir blandaða hljómsveit.

 


Athugasemdir

Nýjast