Ísfisktogarinn Sólbakur EA með Íslandsmet í aflaverðmæti

Skipverjarnir á Sólbak EA, ísfisktogara Brims, höfðu ástæðu til að brosa er þeir komu til heimahafnar á Akureyri fyrir helgina. Aflinn úr þessari síðustu veiðiferð ársins var blandaður, þorskur, ýsa og ufsi, samtals um 70 tonn. Aflinn á árinu er þar með orðinn um 5000 tonn og aflaverðmætið 920 milljónir króna, sem mun vera Íslandsmet hjá ísfisktogara.  

Haraldur Jónsson útgerðarstjóri skipsins mætti um borð í Sólbak með tertu og færði þeim Jóhanni Gunnarssyni skipstjóra og áhöfn hans í tilefni þessa glæsilega árangurs. Togarinn hét áður Kaldbakur EA en nafni hans breytt í Sólbak EA fyrir skömmu. "Okkur fannst nafnið Sólbakur vera svo hlýtt og notalegt  og að það mundi verma okkur í vetur," sagði Haraldur útgerðarstjóri.

Frystiskip Brims, Guðmundur í Nesi RE, kom til hafnar fyrir síðustu mánaðamót úr sinni stærstu veiðiferð til þessa. Aflaverðmæti skipsins var um 235 milljónir króna, eftir 27 daga veiðiferð og var aflinn blandaður, grálúða og karfi. Þetta mun vera Íslandsmet í aflaverðmæti í einni veiðiferð, hjá frystitogara hér á landi, samkvæmt því sem fram kemur á vef Þorgeirs Baldurssonar, http://123.is/thorgeirbald/

Nýjast