Illa gengur að selja í ferðir til Bretlands í beinu flugi

Fyrstu ferðamennirnir frá Super Break í vetur lentu á Akureyri á dögunum. Erfiðlega hefur gengið að …
Fyrstu ferðamennirnir frá Super Break í vetur lentu á Akureyri á dögunum. Erfiðlega hefur gengið að selja í ferðirnar til baka. Mynd/Isavia/Auðunn Níelsson.

Illa hefur gengið að selja í ferðir til Bretlands í beinu flugi frá Akureyri á vegum Super Break ferðaskrifstofunnar. Þetta segir Denise Parkhouse hjá Super Break í samtali við Vikudag. Fyrstu ferðamennirnir á vegum Super Break í beinu flugi til Akureyrar í vetur komu í síðustu viku en búist er við 4.500 manns í alls 29 flugferðum.

Akureyringum og nærsveitungum stendur nú til boða að kaupa sér ferð út til Bretlands með vélunum á hagstæðu verði, en hægt er að fá staka ferð út á aðeins 99 pund eða á rúmar 15 þúsund kr. íslenskar. Einnig eru stakar ferðir á 23 þúsund kr.

Denise segir að Super Break þurfi að fá fleiri bókanir í ferðirnar til Bretlands.

„Við gátum ekki boðið upp á beinar ferðir til Bretlands í fyrra en vegna fjölda áskoranna þá ákváðum við að selja ferðir í flestallar vélarnar sem koma hingað. Hingað til hefur gengið illa að selja, mest höfum við selt til Manchester, en við þurfum mun meiri aðsókn. Okkur langar mikið til þess að halda áfram að bjóða upp á beint flug á milli Bretlands og Akureyrar, en svo verkefnið standi undir sér þá þurfum við að geta treyst á bókanir frá Akureyri.“

Denise Parkhouse

Bjóða upp á 19 flug

Super Break býður upp á 19 flug til Bretlands frá desember 2018 til febrúar 2019 og eru þau öll til minni flugvalla. „Sem þýðir að umferðin er mun minni en engu að síður er auðvelt að koma sér á milli staða til stærri borga. Við höfum valið flug á þægilegum tíma, flest flugin taka minna en þrjá tíma sem þýðir að fólk gæti verið komið til Liverpool fyrir kvöldmat sem dæmi,“ segir Denise.

Hún segir ennfremur að þar sem flugin frá Bretlandi til Akureyrar séu öll frá mismundi áfangastöðum þurfi Íslendingar sem vilja fljúga aftur beint til Akureyrar að fara frá öðrum flugvelli til baka.

„En það býður upp á þann möguleika að heimsækja tvær frábærar borgir í leiðinni og við getum aðstoðað fólk við ferðalögin, hvort sem það er að kaupa lestarmiða til áfangastaða eða á flugvellina,“ segir Denise. „Ef fólk á Norður-og Austurlandi á Íslandi hefur langað til að ferðast til Bretlands þá er sannarlega tækifæri til þess núna. Líkt og Ísland er meira en bara Reykjavík þá er Bretland svo miklu meira en bara London og okkur finnst mjög spennandi að bjóða Íslendingum upp á öðruvísi upplifun á ferðalagi sínu um Bretland. Við erum fús til að aðstoða hvern og einn við að velja sína áfangastaði,“ segir Denise og bætir við: „En hvert sem er flogið, þá er fólk aldrei langt frá fótboltavelli eða verslunarmiðstöð!“

Hægt er að bóka flug með Super Break til Bretlands í síma 5390635 eða á skrifstofu ferðaskrifstofunnar á Glerárgötu 34.         

Nýjast