Icelandair býður uppá flug frá Akureyri til Keflavikur í haust

Akureyrarflugvöllur      Mynd Hörður Geirsson
Akureyrarflugvöllur Mynd Hörður Geirsson

Á tímabilinu 15. október til 30. nóvember 2023, mun Icelandair bjóða upp á flug á milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar í tengslum við millilandaflug sitt. Á tímabilinu verður flogið þrisvar sinnum í viku frá Akureyri til Keflavíkur, á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum klukkan 5:50 að morgni og þrisvar sinnum í viku frá Keflavík til Akureyrar á miðvikudögum klukkan 21:20 og föstudögum og sunnudögum klukkan 17:15. Með fluginu verður auðvelt  að tengja við fjölda áfangastaða Icelandair í Evrópu.

 Þar sem flugið er alþjóðatenging fer öryggisleit fram á Akureyrarflugvelli og einungis verður hægt að bóka það samhliða millilandaflugi með Icelandair. Vegna styttri afgreiðslutíma í öryggisleit og ferðatíma á flugvöll munu íbúar Akureyrar og nágrennis og ferðamenn þaðan geta lagt af stað á flugvöllinn á svipuðum tíma og íbúar höfuðborgarsvæðisins.

 Ákveðið var að hefja flugið utan háannar þar sem gistirými á Norðurlandi er af skornum skammti yfir sumartímann. Markmið Icelandair til framtíðar er að efla alþjóðatenginguna við Akureyri og byggja hana upp í takt við eftirspurn.

 Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að segja frá því að við höfum hafið sölu á tengiflugi milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar. Tengitímar eru mjög þægilegir og með þessari þjónustu bjóðum við Norðlendingum að stytta ferðatímann umtalsvert til fjölda áfangastaða okkar í Evrópu. Tengingunni er einnig ætlað að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið og við munum nýta alþjóðlegt sölunet okkar til þess að byggja upp eftirspurn eftir flugi til Akureyrar á mörkuðum okkar erlendis.“

 Segir í fréttatilkynningu frá flugfélaginu.

Nýjast